þriðjudagur, 2. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Í tilraunastofu náttúrunnar

Guðsteinn Bjarnason
5. mars 2020 kl. 14:00

Nemendur vinna fjölbreytt rannsóknarefni á meðan á námi stendur. Mynd/Háskólasetur Vestfjarða

Síðastliðið haust hófst kennsla í sjávarbyggðafræði, nýrri námsleið á meistarastigi við Háskólasetur Vestfjarða, til viðbótar við nám í haf- og strandsvæðastjórnun sem boðið hefur verið upp á í tólf ár.

„Við erum að fiska eftir fólki sem vill vera hér hjá okkur og læra eitthvað jafnvel af umhverfinu,“ segir Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða á Ísafirði. „Með því að vera á Vestfjörðum í námi í tvö ár fá menn þetta beint í æð. Við tölum hér gjarnan um tilraunastofu náttúrunnar og nú meira að segja um tilraunastofu samfélags.“

Háskólasetur Vestfjarða er til húsa á Ísafirði. Fyrstu nemendurnir hófu þar nám fyrir tólf árum, þegar byrjað var að bjóða upp á nám í haf- og strandsvæðastjórnun í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Síðan þá hafa útskrifast þaðan 150 nemendur, eða nokkuð yfir tíu nemendur árlega að meðaltali.

Síðasta haust var svo byrjað að kenna við nýja námsleið, Sjávarbyggðafræði, og hafa nemendur verið innan við tíu fyrsta árið, en áætlanir ganga út á að um tuttugu nemendur innritist árlega.

„Vissulega fengum við færri nemendur á fyrsta ári en við höfðum áætlað. Þeir urðu innan við tíu, en það er svolítið erfitt að markaðssetja fyrsta árið,“ segir Peter.

Fjölbreytt störf

Hann segir að um 80 prósent útskrifaðra nemenda hafi fengið góðar stöður að loknu námi, jafnvel eftir nokkuð stuttan tíma.

„Þau hafa farið til ýmissa starfa. Almennt er gott að vera upplýstur um þessi mál og kominn með bakgrunn sem gagnast fólki víða.“

Misjafnt sé hvað henti hverjum og einum.

„Strandsvæðastjórnun í þrengri merkingu er mikið til stjórnsýsla, eitthvað sem hið opinbera gerir. Nemendur annars staðar frá, sem yfirleitt hafa ekki mikla íslenskukunnáttu, þeir eiga eðlilega erfitt með að fá stöður í stjórnsýslunni, hjá ríki eða sveitarfélögum. Þeir hafa þá frekar fengið stöður hér á landi í rannsóknum eða við fiskeldi eða annað slíkt. En ef við skilgreinum strandsvæðastjórnun vítt þá er hún alls kyns. Allt sem lýtur að nýtingu strandsvæða, til dæmis ferðamennska eða fiskeldi, er í raun strandsvæðastjórnun í víðum skilningi.“

Hann segir nemendur Háskólasetursins hafa verið góð blanda af útlendingum og Íslendingum, þótt útlendingar hafi vissulega verið í yfirgnæfandi meirihluta.

„Háskólasetrinu hefur gengið vel að ná til vel hæfra námsmanna annars staðar frá,“ segir Peter. „Um helmingurinn kemur frá Norður-Ameríku og helmingurinn frá Evrópulöndum, en okkur hefur enn ekki gengið nógu vel að höfða til íslenskra námsmanna. Það mun vonandi breytast.“

Rannsóknarþátturinn vex

Fagstjóri meistaranáms í sjávarbyggðafræði er Matthias Kokorsch, en hann er með doktorspróf frá Háskóla Íslands og rannsakaði þar sérstaklega byggðaþróun sjávarþorpa hér á landi. Fagstjóri haf- og strandsvæðastjórnunar er Dr. Catherine Chambers.

Peter vill vissulega ekki útiloka að þriðju námsleiðinni verði bætt við, en það yrði þó ekki alveg strax.

"Eins og er horfum miklu frekar til þess að gera meira úr því sem við höfum: Tengja nemendur við atvinnulíf, birta rannsóknarniðurstöður, kennarar eru farnir að dvelja hér í rannsóknarleyfi sínu og svo fer rannsóknarþátturinn með þátttöku í umsóknum um rannsóknarstyrki almennt vaxandi.”

Birtist fyrst í Fiskifréttum 27. janúar 2020.