þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

ICES hækkar ráðgjöf sína í makríl um 16% fyrir árið 2016

20. september 2016 kl. 13:45

Makríll (Mynd: Þorbjörn Víglundsson)

Villa í úrvinnslu gagna leiddi til þess að stofnmat varð lægra en efni stóðu til

Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) hefur endurskoðað ráðgjöf sína um veiðar ársins 2016 úr makrílstofninum, að því er fram kemur á vef Hafrannsóknastofnunar. 

Ástæða þessarar endurskoðunar er að nú í haust kom í ljós kom villa í úrvinnslu nýliðunargagna í stofnmatinu sem gert var á síðasta ári. Þetta leiddi til þess að stofnmatið sem ráðgjöf byggði á var lægra en annars hefði orðið. Því taldi ráðið nauðsynlegt að koma með endurútreikninga á ráðgjöfinni þrátt fyrir að langt sé liðið á árið og stutt í að ný ráðgjöf verði kynnt.

Samkvæmt útreikningunum núna er ráðlagt aflamark fyrir árið 2016 um 774 þúsund tonn en í ráðgjöfinni sem veitt var í lok september 2015 var ráðgjöfin 667 þúsund tonn og aukningin því 107 þúsund tonn, eða 16%.

Aflaregla er ekki í gildi fyrir makrílstofninn og því veitir ICES ráð í miðað við þá veiðidánartölu sem gefur hámarksafrakstur til lengri tíma litið (MSY). Sjá nánar á vef ICES.  ICES mun í lok þessa mánaðar veita ráð um heildarafla ársins 2017 fyrir makríl, norsk-íslenska síld og kolmunna.

Á vef samtaka norskra útvegsmanna kemur fram að í samningum ESB, Noregs og Færeyja síðastliðið haust hafi makrílkvótinn verið ákveðinn 895.900 tonn í heild. Strandríkin skiptu þessum kvóta á milli sín en skildu eftir 15,6% fyrir Ísland, Grænland og Rússland. Norskir útvegsmenn minna á að í ráðgjöf ICES  hafi verið gert ráð fyrir 15% frávikum sem samningsaðilar nýttu sér til hækkunar. Frá árinu 2017 leyfi ICES hins vegar allt að 20% frávik. Þá sé það jafnframt mat ICES að makrílstofninn sé í góðu ástandi þrátt fyrir að veitt hafi verið meira en ráðgjöfin sagði til um.

Ísland og Grænland eru ekki aðilar að samningum ESB, Noregs og Færeyja sem kunnugt er og ákváðu sína eigin kvóta sem eru mun hærri en það sem þeim var skammtað. 

Norskir útvegsmenn segja að óvíst sé hvort endurskoðuð ráðgjöf ICES leiði til þess að makrílkvótar ársins 2016 verði auknir. Þeir séu því þó fylgjandi að norsk stjórnvöld skoði þann möguleika fyrir sitt leyti.