miðvikudagur, 13. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Iceland Seafood ætlar að sækja sér um tvo milljarða

Guðjón Guðmundsson
27. október 2019 kl. 13:00

Bjarni Ármannsson

Hátt hráefnisverð hefur leitt til hækkana

Iceland Seafood International, ISI, stefnir að skráningu á aðalmarkað Nasdaq í lok október með útgáfu á 225 milljónum nýrra hlutabréfa. Hlutafjárútboðið á að skila fyrirtækinu 15-16 milljónum evra, eða um tveimur milljörðum íslenskra króna.

Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood, segir mikla eftirspurn eftir léttsöltuðum þorski á Spáni. Þetta ásamt háu hráefnisverði hafi leitt til verðhækkana sem leggjast ekki vel í kaupendur.

Undercurrent News ræddi við Bjarna á Conxemar matvælasýningunni í Vigo á Spáni sem haldin var í byrjun mánaðar. Bjarni hefur leitt samruna Iceland Seafood og Icelandic Iberica sem verður til lykta leiddur 1. janúar 2020. Meðal stærstu hluthafa í ISI eru FISK Seafood, Nesfiskur, Jakob Valgeir og Brim.

Reynir á langlundargeð

„Fiskverð hefur hækkað og eins og með allar aðrar afurðir eru takmörk fyrir því að hve mikið það getur hækkað enn. Við höfum fundið það hérna á sýningunni að það er farið að reyna á langlundargeð kaupenda sem bendir til þess að toppnum hefur verið náð. Ég veit ekki hvort verðið leiti jafnvægis á ný eða hvort kaupendur fari aðrar leiðir, hvort sem það eru afurðir af minni gæðum eða aðrir birgjar eins og Kína,“ sagði Bjarni.

Hann segir að Iceland Seafood sé þegar farið sjá ávinning af samrunanum en áhrifin verði enn sýnilegri á næsta og þarnæsta ári.

Meiri fjárfestingar framundan

Bjarni segir að verið sé að straumlínulaga reksturinn á Spáni og meginstarfsemin verði í Barcelona. Verið sé að sameina skrifstofuna sem Iberica hefur haft í Barcelona við skrifstofu Iceland Seafood og breyta skipulaginu. Einnig verði hluti af þorskvinnslu fluttur frá Malaga til Barcelona. Í Malaga verði miðstöð dreifingar fremur en miðstöð vinnslunnar. Íslenskur fiskur verði fluttur í gegnum Rotterdam til Barcelona þar sem hann verði unninn og fari í dreifingu. Þetta samrunaferli á að skila fyrirtækinu 3-3,5 milljónum evra í rekstrarsparnað.

Bjarni segir að 15-16 milljóna evra hlutafjárútboð sem framundan sé verði nýtt til að styrkja eiginfjárhagsstöðuna. „Við höfum verið í stigvaxandi fjárfestingum og munum halda áfram á þeirri braut.“

Fjárfestingar sem þar er vísað til tengjast starfsemi í Írlandi og Argentínu. Þá bíði Iceland Seafood átekta hvað varðar útkomuna í tengslum við Brexit. „Þar gætu verið tækifæri framundan. En óvissan er slík að við verðum að bíða átekta. Við erum ánægðir með árangur okkar hingað til í Bretlandi og við sjáum fremur tækifæri þar en hindranir,“ sagði Bjarni í viðtalinu.