laugardagur, 31. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Iceland Seafood kaupir spænskt saltfiskfélag

8. nóvember 2019 kl. 09:40

Íslenskur saltfiskur hefur sterka gæðaímynd á Spáni.

Félagið er staðsett í Barcelona og selur um 2.200 tonn af afurðum á ársgrundvelli. Kaupverðið er rúmlega 600 milljónir króna.

Iceland Seafood hefur náð samkomulagi við GPG seafood ehf og IceMar ehf, núverandi eigendur Elba S.L. um helstu skilmála vegna fyrirhugaðra kaupa á félaginu. Aðilar eru sammála um að ljúka gerð kaupsamnings eins fljótt og auðið er. Kaupin verða með hefðbundnum fyrirvörum um áreiðanleikakönnun og samþykki stjórnar, áformað er að Iceland Seafood taki við félaginu í árslok 2019.

Þetta kemur fram í fréttatilkynning frá Iceland Seafood

Í tilkynningunni segir jafnframt að samkomulag aðila geri ráð fyrir að Iceland Seafood muni kaupa 100% eignahlut á 4,4 milljónir evra eða um 600 milljónir íslenskra króna. Gert sé ráð fyrir að helmingur kaupverðs verði greiddur með reiðufé og helmingur með nýjum hlutabréfum í Iceland Seafood. Að því gefnu að öll skilyrði verði uppfyllt og miðað við samkomulag milli aðila þá muni núverandi hluthafar Elba eignast um 1,2% hlut í Iceland Seafood eftir söluna.

Þá segir í tilkynningunna að staða Elbu á Spánarmarkaði sé sterk, en félagið framleiðir og selur léttsaltaðar þorskafurðir. Félagið er staðsett í Barcelona og selur um 2.200 tonn af afurðum á ársgrundvelli. Félagið selji vörur undir vörumerkinu ElBa, sem hafi sterka ímynd á markaði sem gæðavara. Áætluð sala félagsins sé um 14,5 milljónir evra í ár.

„Elba verður frábær viðbót við þá starfsemi sem við rekum á Spáni og gerir okkur kleift að nýta enn frekar okkar sterku dreifileiðir og framleiðslu á þessum stærsta markaði fyrir íslenskar þorskafurðir. Við trúum því að þessi viðskipti verði til hagsbótar fyrir hluthafa okkar, viðskiptavini og birgja. Kaupin eru í fullu samræmi við stefnu okkar um að leggja áherslu á vöxt á okkar lykilmörkuðum þar sem við höfum nú þegar sterkan grunn og markaðsstöðu. Á sama tíma vil ég bjóða GPG Seafood og IceMar velkomin í hluthafahópinn og við bjóðum starfsmenn Elba á Spáni velkomin í Iceland Seafood fjölskylduna. Við hlökkum til samstarfsins," er haft eftir Bjarna Ármannssyni, forstjóra Iceland Seafood International í tilkynningunni.

„Það er spennandi skref fyrir Elba að tengjast starfsemi Iceland Seafood á Spáni sterkum böndum og verða hluti af leiðandi félagi í Suður Evrópu á sviði sjávarfangs. Við trúum því sömuleiðis að viðskiptin muni enn frekar styrkja sambandið milli GPG Seafood og Iceland Seafood og verði báðum aðilum til hagsbóta á komandi árum," segir Gunnlaugur Hreinsson, Stjórnarformaður GPG Seafood ehf í tilkynningunni.

„Tíminn frá því við keyptum Elba á árinu 2017 hefur verið einstaklega skemmtilegur. Við höfum átt árangursríkt samstarf við stjórnendur og starfsmenn félagsins. Elba er nú enn sterkara félag sem byggir á góðum grunni og mun verða frábær viðbót við starfsemi Iceland Seafood á Spáni," segir Gunnar Örlygsson, Stjórnarformaður IceMar ehf.