þriðjudagur, 26. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Icelandic Group sækir um MSC vottunarferil fyrir þorsk og ýsu

26. október 2010 kl. 16:18

Icelandic Group, sem er stærsta sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi, hefur  ákveðið að sækja um vottun samkvæmt staðli Marine Stewardship Council (MSC) fyrir þorsk og ýsuveiðar við Ísland.  Þegar vottun er fengin þá verður hægt að merkja allar afurðir úr þessum fiskstofnum, sem seldar verða í sölukerfi Icelandic, með umhverfismerki MSC.

Umsóknin er fyrir fimm gerðir veiðarfæra en veiðar úr þessum stofnum voru  árið 2009 um 160 000 tonn af þorski og 82000 tonn af ýsu.  Fyrirtæki utan Icelandic Group geta sótt um aðgang að vottuninni á síðari stigum í samstarfi við félagið.

Ingvar Eyfjörð, aðstoðarforstjóri Icelandic Group segir í fréttatilkynningu af þess tilefni: " MSC vottunarferlið er mikilvægt skref í frekari fjárfestingum Icelandic Group í íslenskum sjávarútvegi, en félagið kaupir og markaðssetur 35% af öllum afla sem veiðist við Íslandsstrendur á ári hverju. Það er því mikið ánægjuefni að félagið geti haft forystu um að innleiða slíkt gæðavottunarferli fyrir hönd Íslendinga.MSC gæðavottun mun að okkar mati festa í sessi öflugt og ábyrgt fiskveiðistjórnunarkerfi Íslendinga og styðja þannig ennfremur við árangursríka markaðssetningu á íslensku sjávarfangi á erlendum markaði nú sem fyrr.  Traust  gæðamerki MSC mun auðvelda viðskiptavinum okkar að velja besta kostinn í umhverfisvænu sjávarafangi.“

Rupert Howes, forstjóri  MSC segir: “Ákvörðun Icelandic Group um að innleiða vottunarferli  í öllum þorsk- og ýsuveiðum við Íslandsstrendur er sögulega mikilvæg  og mun setja mark sitt á flest sem viðkemur veiðum, vinnslu og sölu á bolfiski á Íslandi. Icelandic Group er leiðandi útflutningsfyrirtæki í Bandaríkjunum og Evrópu og brautryðjendastarf þeirra með MSC-vottun mun hafa mikil áhrif á helstu mörkuðum þess og hjá kaupendum. Ég er fullviss um að verslanir og veitingastaðir þar munu fylgjast af áhuga með vottunarferlinu og vænta árangurs af því. Íslendingar eiga langa sögu af þorsk- og ýsuveiðum sem þeir geta verið stoltir af og við vonumst til að eiga traust samstarf um þessa gæðavottun. ”