sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Icelandic selur dótturfyrirtæki sitt í Belgíu

10. apríl 2017 kl. 11:27

Húsakynni Gadus í Belgíu.

Kaupendur eru félag í eigu íslenskra útflytjenda sjávarafurða.

Icelandic Group hefur komist að samkomulagi um sölu á dótturfélagi sínu í Belgíu, Gadus, til Steinasala ehf. Að baki Steinasölum standa Sigurður Gísli Björnsson hjá Sæmarki-sjávarafurðum, Akur fjárfestingar, Hjalti Halldórsson og Bjartmar Pétursson hjá Fishproducts Iceland ásamt öðrum íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum.

Stjórn Icelandic Group tilkynnti um söluferli á Gadus í janúar síðastliðnum. Samkvæmt fréttatilkynningu á vef Framtakssjóðs Íslands (eiganda Icelandic Group) frá því í gær sýndu fjölmargir innlendir sem og erlendir aðilar áhuga á kaupum á félaginu. Á endanum var gengið til samninga við Steinasali. 

Söluverð Gadus er ekki gefið upp, en samkvæmt fréttatilkynningunni er markmið Steinasala með kaupunum að efla sölu og markaðssetningu á íslenskum sjávarafurðum í Belgíu og mið-Evrópu.

Helstu söluvörur Gadus eru þorskur og lax til smásölu- og heildsöluaðila í Belgíu. Um 7.000 tonn af vörum fara árlega um verksmiðju félagsins og starfsmenn eru um 130 talsins. Tekjur Gadus námu ríflega 83 milljónum evra árið 2016.

Sjá nánar á vef Viðskiptablaðsins.