laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

ICES: Upphafskvóti loðnu verði 0 tonn

19. maí 2016 kl. 15:04

Loðna

Ráðgjöfin í samræmi við mælingar Hafró á ungloðnu síðastliðið haust

Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES ) birti í dag ráðgjöf sína um veiðar á loðnu við Ísland á vertíðinni 2016/2017. Þar er lagt til að upphafskvótinn verði 0 tonn. Sjá HÉR

Þessi ráðgjöf kemur ekki á óvart því hún byggist á mælingum Hafrannsóknastofnunar á ungloðnu síðastliðið haust. Í frétt á vef Hafró í október í fyrra segir um niðurstöður mælinganna: „Mjög lítið, eða um 6,2 milljarðar fiska, mældist af ókynþroska loðnu, en hún fannst einkum syðst á rannsóknasvæðinu, þ.e. við grænlenska landgrunnið vestan 23°V og út af Vestfjörðum vestan 25°V. Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) byggir ráðgjöf um veiðar á vertíðinni 2016/2017 á þessari mælingu á ungloðnu og ljóst er að engar veiðar verða heimilaðar að óbreyttu.“

Ekki er gefinn út upphafskvóti ef mælingin er undir 50 milljörðum af ungloðnu. Hafa ber í huga að ekki var farið yfir allt rannsóknasvæðið við mælingar á ungloðnunni þannig að líkur eru þar af leiðandi á því að stofninn sé vanmetinn.

Endanlegur kvóti á vertíðinni 2016/2017 verður ákveðinn eftir mælingar á veiðistofni loðnu næsta haust og vetur.