sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

IFS Greining: Verðhækkun sjávarafurða annan mánuðinn í röð

30. júní 2009 kl. 15:00

Verð á íslenskum sjávarafurðum (meðaltal allra afurðaflokka) mælt í erlendri mynt hækkaði um 2,0% í maí síðastliðnum, að því er fram kemur í úttekt frá IFS Greiningu.

Þessi niðurstaða er byggð á útreikningum IFS miðað við nýlegar tölur frá Hagstofunni um framleiðsluverð í maí.

Afurðaverðið hefur nú hækkað í tvo mánuði í röð en hafði áður lækkað níu mánuði í röð, segir IFS. Síðustu sex mánuði hefur afurðaverð lækkað um 9,1% mælt í erlendri mynt. Nýjustu tölur gefa vísbendingu um að afurðaverð hafi náð botni í mars og geti smám saman hækkað að nýju á næstu misserum samhliða betri aðstæðum á erlendum mörkuðum. Almennt hefur verð á  hrávörum á heimsmarkaði hækkað á síðustu vikum. Hækkunin á afurðum í erlendri mynt nú rímar því ágætlega við þróun á hrávörumarkaði undanfarið.

IFS segir að afurðaverðið nú sé álíka hátt og árið 2006. Hrávöruvísitölur sýna að ýmsar aðrar hrávörur eru að sama skapi álíka dýrar og fyrir þremur árum. Vegna veikrar stöðu krónunnar er afurðaverð hins vega hátt mælt í íslenskum krónum.

Kaupendur af íslenskum sjávarafurðum erlendis hafa undanfarið lagt áherslu á að takmarka birgðir. Vegna þess og almennt hægari sölu á mörkuðum eru birgðir enn miklar í sögulegu samhengi, segir ennfremur í greiningu IFS.