föstudagur, 14. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Íhuga að afturkalla eldisleyfin

13. nóvember 2017 kl. 07:00

Stöðug gagnrýni á sjóeldi á laxi gerir yfirvöld í Kanada tvístígandi um framhaldið

Marine Harvest, norski laxeldisrisinn, á það á hættu að missa leyfi til að starfrækja laxeldisstöðvar sínar í Port Elizabeth í Bresku Kólumbíu, fylki í suðvestur Kanada. Þessi skilaboð fær fyrirtækið frá þarlendum embættismönnum, en fyrirtækið þarf að endurnýja leyfi sín á næsta ári.

Í kanadískum fjölmiðlum, þar á meðal Buisiness in Vancauver, segir að Marine Harvest, eins og önnur laxeldisfyrirtæki á svæðinu hafa legið undir þungri gagnrýni frá umhverfisverndarsamtökum og frumbyggjum svæðisins, sem vilja fyrirtækið burt. Gagnrýnin er kunnugleg – hverfist um öll þau helstu deilumál sem upp hafa sprottið hérlendis – slysasleppingar, sjúkdóma, mengun við eldisstöðvar og erfðablöndun við villtan lax.

Hnignun laxastofna
Þar er haft eftir John Horgan, háttsettum embættismanni, að litið sé til tilskipana Sameinuðu þjóðanna um réttindi frumbyggja og niðurstöðu svokallaðrar Cohen-nefndar; opinberrar nefndar sem gerði úttekt á hnignun villtra laxastofna á svæðinu. Nefndin birti í úttekt sinni ráðlagði í skýrslu sinni að gönguleiðir laxastofnanna yrðu tryggðar, sem gæti þýtt að fyrirtækjum yrði gert að taka upp sjókvíar sínar eða að færa aðra starfsemi sem gæti hindrað göngur þeirra.

Svo rammt hefur kveðið að mótmælum á svæðinu að nýlega kallaði Marine Harvest til lögreglu svo fyrirtækið gæti sett út seiði í eldiskvíar sínar. Nokkur afföll urðu á fiski, og hefur fyrirtækið kennt mótmælendum um.

Ala 45.000 tonn af laxi
Spurður hvort það geti komið til greina að loka á starfsemi Marine Harvest, eftir 30 ára eldisstarfsemi á svæðinu, segir Horgan í viðtalinu við Buisness in Vancauver að fyrirtækinu sé fullljóst að leyfi séu ekki gefin til allrar framtíðar. Sérstaklega eigi það við þar sem fyrirtækið þekki það vel að laxeldi í opnum sjókvíum hefur verið umdeilt í Bresku Kolumbíu í áratugi.

Hagsmunirnir sem eru undir eru miklir. Á heimasíðu Marine Harvest kemur fram að fyrirtækið framleiðir 20% af öllum eldislaxi í heiminum í stöðvum sínum í Noregi, Skotlandi, Síle, Írlandi, Færeyjum og Kanada. Við kanadísku kyrrahafsströndina í Bresku Kolumbíu og Vancauver-eyju eru alin 45.000 tonn af Atlantshafs-laxi á ári hverju.