þriðjudagur, 18. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

IKEA býður eingöngu upp á vottað sjávarfang

Guðsteinn Bjarnason
6. desember 2018 kl. 07:00

Ikea

Þótti vesen í fyrstu, sagði Guðný Camilla Aradóttir hjá IKEA. Fyrirtækið fékk fyrir nokkrum árum fyrirmæli frá höfuðstöðvum erlendis.

„Snemma árs fengum við þau skilaboð að utan að frá og með ágúst 2015 yrði eingöngu boðið upp á MSC- og ASC-vottað sjávarfang í IKEA á heimsvísu,“ sagði Guðný Camilla Aradóttir í erindi sínu á Sjávarútvegsráðstefnunni í Hörpu. Guðný er yfirmaður samfélagsábyrgðar og samskipta hjá IKEA hér á landi.

„Það skal alveg viðurkennast að þessum fréttum var tekið svona frekar varfærnislega í okkar herbúðum.“ Þetta hafi þótt vesen.

„Svona breytingar þýða aukna vinnu og kostnað til að byrja með, rétt eins og þegar við ákveðum að byrja að flokka plast heima,“ sagði Guðný.

Það hafi lengi verið yfirlýst stefna hjá IKEA hér á landi að kaupa matvæli hér á landi þegar því verður við komið frekar en að flytja þau frosin í gámum milli landa með tilheyrandi kolefnisspori.

„Við vildum gjarnan kaupa innlent hráefni, en þetta þýddi að við gátum það ekki lengur í sumum tilvikum og fengum ekki undanþágur til þess.“

Hún segir viðbrögðin hjá byrgjum almennt hafa verið nokkuð jákvæð. Þeir hafa þurft að útvega vottanir og flestir hafa gert það en þó ekki allir. Helst vanti þar vottanir í fiskeldinu. Laxinn þarf IKEA enn að kaupa frá útlöndum.

Nú að þremur árum liðnum er staðan sú, segir Guðný, að fyrir IKEA á Íslandi sé vottunin hvorki í þyngjandi né til einhverra merkjanlegra hagsbóta.

„Það tók tíma að taka upp nýjar venjur en það var aldrei það íþyngjandi að það væri til einhverra vandræða.“