mánudagur, 22. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Innrás í Rússland

21. september 2018 kl. 06:00

Frá sýningarbás KNARR samsteypunnar á sjávarútvegssýningunni í Pétursborg. MYND/GUGU

Íslensk tæknifyrirtæki finna fyrir stórauknum umsvifum í Rússlandi

Íslensk fyrirtæki voru áberandi á sjávarútvegssýningunni í Pétursborg sem haldin var í annað sinn dagana 13.-15. september síðastliðinn. Fiskifréttir voru á sýningunni þar sem 15 íslensk sýndu sínar vörur og þjónustu.

Fyrirferðamestur var sýningarbás Knarr samsteypunnar sem hefur náð athyglisverðum árangri á alþjóðavísu en ekki síst í Rússlandi á undanförnum misserum. Þannig hefur fyrirtækjasamsteypan náð samningum um smíði á 10 nýjum skipum fyrir útgerðarrisann Norebo og önnur fyrirtæki innan samsteypunnar, eins og Skaginn 3X, Kælismiðjan Frost og Rafeyri hafa landað samningum um smíði og uppsetningu á tveimur uppsjávarverksmiðjum í austurhéröðum landsins og líklegt að sú þriðja bætist við.  Skipahönnunarfyrirtækið Nautic, í gegnum hið nýstofnaða Nautic Rus í Pétursborg, hefur náð samningi við Russian Fishery um hönnun og heildarlausn byltingarkennds krabbaskips og líklegt að fleiri fylgi í kjölfarið.

Fyrirtækin íslensku finna öll fyrir auknum umsvifin í Rússlandi sem kemur í kjölfar ákvörðunar Rússa um að verða sjálfum sér nægir í sjávarútvegi með tilheyrandi endurnýjunarbylgju í útgerð og vinnslu í kjölfar viðskiptabanns Rússa á vestræn ríki.

Viðskiptabannið nær ekki til tæknigeirans og menn innan hans á Íslandi tala um að tækifærin séu á hverju strái og menn geri sér almennt ekki grein fyrir umfangi þeirra umsvifa sem þegar eru í gangi og bíða handan við hornið.

Hampiðjan hefur fyrir löngu haslað sér völl í Rússlandi ekki síður en hátæknifyrirtækin Marel og Valka. Á staðnum voru líka karaframleiðendurnir Sæplast og Borgarplast og þeir fyrrnefndu töluðu um að talsverð aukning væri framundan í sölunni til Rússlands. Toghleraframleiðandinn Polar sér einnig fram á aukinn umsvif og stefnir að stofnun eigin fyrirtækis í landinu til að auðvelda samskipti og viðskipti.