mánudagur, 9. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Innrás útlendinga mótmælt

Guðsteinn Bjarnason
20. maí 2018 kl. 07:00

Fiskeldi á Vestfjörðum. MYND/HAG

Á fjórða tug athugasemda hafa borist atvinnuveganefnd vegna frumvarps um breytingar á ýmsum ákvæðum laga er tengjast fiskeldi. Frumvarpið var lagt fram á þingi snemma í apríl og bíður nú annarrar umræðu.

Sitt sýnist hverjum enda koma athugasemdirnar, sem nú eru orðnar 37 talsins, meðal annars frá fiskeldisfyrirtækjum, veiðifélögum, náttúruverndarsamtökum og opinberum stofnunum á borð við Fiskistofu, Matvælastofnun og Hafrannsóknarstofnun. Hér verða fáein atriði nefnd, sem eru þó aðeins brot af því sem til umræðu kemur í athugasemdunum.

Í sameiginlegum athugasemdum Náttúruverndarsamtaka Íslands og 14 veiðirétthafa er meðal annars skorað á þingnefndina að kynna sér stöðuna á fiskeldi í Noregi. Þar eigi fiskeldi sér nokkuð langa sögu með dýrkeyptum afleiðingum fyrir villta laxastofna, vistkerfi hafsins og náttúruvernd.

Enga framtíðarsýn að finna
„Þar í landi er áherslan núna lögð á að sameinast um framtíðarsýn, þar sem allt eldi verði í lokuðum kerfum til að lágmarka eða útiloka erfðablöndun, lúsafár og umhverfismengun. Enga slíka framtíðarsýn er að finna í frumvarpinu,“ segir í athugasemdunum. „Þar virðist byggt á úreltum hugmyndum um opnar sjókvíar, sem ekki fást lengur ný leyfi fyrir í Noregi og hafa verið bannaðar m.a. í Svíþjóð og Alaska og með nýlegum lögum í Washingtonríki í USA.“

Þar er einnig mótmælt „innrás sjókvíaeldis útlendinga bakdyramegin inn í íslenska landhelgi í gegnum íslensk skráð hlutafélög. Kanna þarf hvort meirihlutaeign útlendinga í eldisfyrirtækjum standist stjórnarskrá og gildandi lög um aðgengi að notkun sjávar í íslenskri landhelgi.“

Ennfremur segja samtökin óhæfilega matsskyldu lagða á ráðherra: „Ættu ákvæði laganna ekki að vera svo skýr, að ekki þurfi að koma til að einhver ráðherra þurfi að meta eða kveða upp úr um ótal framkvæmdaatriði eldisiðjunnar?“

Fiskeldisfyrirtækin hafa aftur á móti áhyggjur af öðrum þáttum, og þá ekki síst áhættumatinu sem nú á að leiða í lög.

Aldrei annað en hugarfóstur
„Hér er um að ræða mjög víðtækt framsal til Hafrannsóknarstofnunar sem býr hvorki yfir reynslu né þekkingu til að meta slíka hluti,“ segir til dæmis í athugasemdum frá Fiskeldi Austfjarða. „Blöndun þarf að eiga sér stað yfir langt tímabil svo hún hafi áhrif á erfðamengi áa og því eðlilegt að miðað sé við útgefið burðarþol en gripið verði inní ef að samtímavöktun sýnir fram á blöndun erfða. Sérstakt áhættumat verður aldrei annað en hugarfóstur þeirra er það gera og vænting um hvað muni gerast.“

Landssamband fiskeldisstöðva leggur síðan mikla áherslu á að fullt traust skapist um fyrirkomulag áhættumats verði það lögfest sem skilyrði fyrir útgáfu rekstrar og starfsleyfa, enda sé hér um nýmæli að ræða nýmæli sem „fyrirsjáanlega mun hafa mikil áhrif og getur haft mikil áhrif á uppbyggingu fiskeldisins í landinu.“

Gagnrýnt er að við gerð áhættumats sé ekki gert ráð fyrir þekktum mótvægisaðgerðum gegn erfðablöndun sem séu margreindar í öðrum löndum í góðri sátt veiðiréttareigenda og laxeldisfyrirtækja.

„Í þessu sambandi má nefna að Landssamband Fiskeldisstöðva hefur í allan vetur unnið með sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar við skoðun á notkun mótvægisaðgerða og hefur náðst gott samkomulag um ýmsar aðferðir sem hafa jákvæð áhrif á líkur á erfðablöndun skv. áhættulíkani Hafrannsóknarstofnunar.“