fimmtudagur, 20. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Interpol lýsir eftir veiðiþjófi

6. desember 2013 kl. 12:28

Veiðiþjófurinn umræddi sem gengið hefur undir ýmsum nöfnum. (Mynd: Interpol).

Talinn hafa fiskað ólöglega fyrir 7 milljarða króna frá árinu 2006.

Aðgerðir gegn fiskiskipum sem veiða ólöglega í heimshöfunum hafa verið hertar til muna að undanförnu eftir að alþjóðasamfélagið hefur bundist samtökum um að taka málið fastari tökum. 

Alþjóðalögreglan Interpol hefur að beiðni Nýja-Sjálands, Ástralíu og Noregs, lýst opinberlega eftir skipi sem núna er talið bera nafnið Thunder fyrir umsvifamikinn veiðiþjófnað. Í tilkynningunni frá Interpol, sem birt er í 190 löndum,  segir að skipið hafi á síðustu tveimur árum fiskað undir að minnsta kosti þremur mismunandi nöfnum og fánum í því augnamiði að forðast að verða gómað við iðju sína. 

Sem dæmi má nefna að í júlí í fyrra var það skráð í Mongólíu (sem hvergi á land að sjó) undir nafninu Wuhan 4 en mánuði seinna sást það í Indlandshafi og hét þá Kuko. Núna heitir skipið Thunder og er skráð í Nígeríu. 

Talið er að eigendur skipsins hafi þénað meira en 60 milljónir dollara, jafnvirði 7,2 milljarða íslenskra króna, frá því að það var sett á svartan lista í febrúar 2006 hjá stofnun þeirri sem stjórnar nýtingu sjávarauðlinda í Suður-Íshafinu (CCAMLR). Talið er að skipið sé nú á ólöglegum tannfiskveiðum  nálægt Suðurskautslandinu en tannfiskurinn er mjög verðmæt tegund. 

Interpol hefur nýlega verið virkjað í baráttunni gegn ólöglegum veiðum í heiminum og er þetta þriðja skipið sem alþjóðalögreglan lýsir eftir frá því í september í haust. Fyrsta skipið var eftirlýst að beiðni Norðmanna en það bar nafnið Snake.