sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ísafjarðarbær hyggst sækja um byggðakvóta

23. apríl 2008 kl. 13:54

Bæjarráð hefur falið bæjarstjóra að sækja um byggðakvóta fyrir Ísafjarðarbæ. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis hefur gefið sveitarfélögum kost á að sækja um byggðakvóta á grundvelli 10. gr. laga nr. 116/2006, með síðari breytingum, að því er fram kemur á bb.is.

Til greina við úthlutun byggðakvóta koma minni byggðarlög sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og sem háð eru veiðum og vinnslu á botnfiski. Skal sveitarstjórn gera ráðuneytinu ítarlega grein fyrir vanda byggðarlagsins sem talið er að rekja megi til samdráttar í sjávarútvegi á síðustu árum, og fyrir þýðingu veiða og vinnslu botnfisks fyrir það byggðarlag. Viðmiðun fyrir minni byggðarlög eru 1.500 íbúar.

Einnig koma til greina byggðarlög sem orðið hafa fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa sem gerð hafa verið út og landað afla í viðkomandi byggðarlögum, með verulegum áhrifum á atvinnuástand. Sveitarstjórnir skulu leggja fram gögn sem sýna fram á að í tilteknu byggðarlagi hafi óvænt skerðing heildaraflaheimilda fiskiskipa sem gerð eru þaðan út og landað hafa þar afla, haft veruleg neikvæð áhrif á atvinnuástand í viðkomandi byggðarlagi.

Umsóknarfrestur er til 30. apríl en að fengnum umsóknum sveitarfélaga tekur ráðuneytið ákvörðun um hversu mikill byggðakvóti kemur í hlut einstakra byggðarlaga.