sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ísfélag Vestmannaeyja fagnar 110 ára afmæli

7. desember 2011 kl. 09:00

Álsey VE, eitt af skipum Ísfélagsins. (Mynd: Guðm. St. Valdimarsson).

Er elsta hlutafélag landsins.

Elsta hlutafélag landsins og jafnframt elsta sjávarútvegsfyrirtækið, Ísfélag Vestmannaeyja, fagnaði því í síðustu viku að 110 ár eru liðin frá því að fyrirtækið var stofnað.

Ísfélagið, sem var stofnað 1. desember 1901, er í dag á meðal öflugustu útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækja landsins og gerir út sex skip. Auk umfangsmikillar starfsemi í Vestmannaeyjum er fyrirtækið með talsverða starfsemi á Þórshöfn á Langanesi.  Starfsmenn í báðum starfsstöðvum gerðu sér glaðan dag í tilefni tímamótanna.

„Saga Ísfélags Vestmannaeyja er öðrum þræði saga atvinnuþróunar og samfélagsins í Eyjum og um leið staðfesting þess að þegar fyrirtæki eru stofnuð eru þau ekki hugsuð sem skammtímalausn heldur er þeim ætlað hlutverk til langrar framtíðar. En það er ekki sjálfgefið að fyrirtæki nái svo háum aldri," segir Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóri Ísfélagsins í samtali við Útveginn, vefsíðu LÍÚ.

Stefán segir hollt að rifja upp söguna á tímum sem nú, þar sem  sjávarútvegsfyrirtæki upplifi viðvarandi óvissu um framtíðina og búi við yfirvofandi grundvallarbreytingar á rekstrarumhverfi fyrirtækjanna. „Traust atvinnustarfsemi er kjölfesta hvers samfélags og það fjöregg sem menn henda ekki á milli sín í karpi um pólitískan rétttrúnað."