sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ísfélagið hyggst halda annarri nýsmíðinni í Chile

25. júní 2009 kl. 12:11

,,Við hyggjumst halda öðru skipinu en höfum til skoðunar að losa okkur við hitt. Þetta er allt í vinnslu og því ekkert meira um það að segja á þessu stigi,” sagði Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson stjórnarformaður Ísfélags Vestmannaeyja þegar Fiskifréttir inntu hann eftir hvort breyting hefði orðið á áformum félagsins um nýsmíði tveggja uppsjávarskipa sem samið var um í Chile í ljósi breyttra aðstæðna.

Gunnlaugur Sævar sagði að það væri rétt byrjað á smíði fyrra skipsins og afhending þess væri áætluð eftir eitt og hálft ár. Seinna skipið er á áætlun eftir tvö og hálft ár. Hann sagði ekki ljóst hvort skipið Ísfélagið tæki.

Skipin verða 71 metri á lengd og 14,4 metrar á breidd með rúmlega 2.000 tonna burðargetu í sjókælitönkum. Samið svar um smíði skipanna við Asmar skipasmíðastöðina síðla árs 2007 og var það liður í mikilli endurnýjun á uppsjávarflota Ísfélagsins. Frá þeim tíma hafa orðið miklar breytingar á ytra umhverfi, bæði vegna efnahagshrunsins og eins vegna samdráttar í uppsjávarveiðum.