sunnudagur, 15. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ísinn að sleppa ógnarmagni af plasti

1. júlí 2017 kl. 09:00

Á strendur afskekktra svæða rekur ógnarmagn af plasti á fjörur. Mynd/EPA

Strandir á afskekktum svæðum á norðurslóðum eru mjög mengaðar af plasti, eru niðurstöður leiðangurs til Svalbarða og Jan Mayen. Strandir eyjanna tveggja reyndust mengaðri en strendur fjölbýlla svæða í Evrópu.

Strandir á afskekktum svæðum á norðurslóðum eru mjög mengaðar af plasti, eru niðurstöður leiðangurs til Svalbarða og Jan Mayen. Strandir eyjanna tveggja reyndust mengaðri en strendur fjölbýlla svæða í Evrópu.

Þetta kemur fram í frétt Guardian en skýringin virðist vera sú að golfstraumurinn flytur plast þangað norður eftir, og það á ótrúlega skömmum tíma. Frá því að plastrusl lendir í sjóinn við Bretlandseyjar og þangað til því skolar upp á fjörur svo norðarlega sem raun ber vitni líða aðeins um tvö ár.

Ísinn sleppir plastinu
Þessi staðreynd er þó aðeins lítill hluti mengunarvandans. Á síðustu áratugum hafa ókjörin öll af plastrusli, stórir hlutir sem smáir, orðið innlyksa í ísbreiðum norðurslóða. Er það mat vísindamanna að magnið sé ógnvænlegt, og mun meira en í plastflákanum í norðanverðu Kyrrahafi sem oft er vitnað til í ræðu og riti. Þá eru plastagnir ótaldar, örplast sem berst í sjóinn með skólpi, ám og lofti, en magn þeirra í heimshöfunum er erfitt að meta.

Í frétt Guardian benda vísindamennirnir á að með hlýnun jarðar, og bráðnandi ísþekju muni mengunarvandinn margfaldast. Þegar ísinn sleppir takinu á plastdraslinu fer það aftur að ógna viðkvæmu lífríkinu sem er þar fyrir.

Í hundruða vís
Umræddur leiðangur, sem var farinn af hollenskum vísindamönnum frá Wageningen umhverfisrannsóknastofnuninni (WER), náði til sex afmarkaðra stranda á Svalbarða. Þar reyndust vera 876 plasthlutir á hverjum 100 metrum strandanna. Á Jan Mayen voru þeir 575 á hverjum 100 metrum. Vísindamennirnir báru saman niðurstöður rannsókna frá heimalandi sínu, en þar voru að meðaltali  375 plasthlutir á þeim ströndum sem skoðaðar voru – þrátt fyrir mikla nálægð við stóra bæi og borgir.

Ruslakista
„Það sem berst þarna norður eftir mun vera þar um aldur og ævi,“ segir Wouter Jan Strietman, einn vísindamannanna, í frétt Guardian. „Straumar sjá til þess að plastmengun í þessum afskekkta heimshluta eykst ár frá ári – hafið á norðurslóðum verður að ruslakistu Evrópu.“

Markmið leiðangursins var ekki einungis að kanna magn, heldur ekki síður uppruna mengunarinnar. Lítið er vitað um hvaðan plastið kemur nákvæmlega, og er það miður þar sem uppruninn er forsenda þess að gera eitthvað í málinu. Helmingur þess sem fannst var svo veðrað að ekkert var hægt að segja um hvað þar var á ferðinni, en 12% af ruslinu voru gömul net, reipi og baujur frá fiskiskipum. Mikið fannst af plastböndum, sem eiga uppruna sinn að rekja til frystiskipaflotans. Stærstur hluti plastruslsins var þó flöskur og tappar, og annað af svipuðum toga.

Alls staðar rusl
Í grein Guardian segir jafnframt að plastmengunin er svo sannarlega ekki bundin við afskekkta staði á norðurslóðum, heldur þvert á móti má finna plastruslið á fjörum um allan heim – slík er mengun heimshafanna orðin. Fréttir frá Henderson-eyju í Suður-Kyrrahafi eru til marks um það – óbyggð smáeyja sem er á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Hvergi hefur fundist meira af plastrusli í heiminum, þó talið hafi verið að hún væri ósnortin sökum þess hversu afskekkt hún er.

svavar@fiskifrettir.is