mánudagur, 8. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ísland gæti misst forskotið

Guðsteinn Bjarnason
12. janúar 2020 kl. 07:00

Craig Heberer og Christopher McGuire frá náttúruverndarsamtökunum The Nature Conservancy. MYND/GB

Craig Heberer og Christopher McGuire frá bandarísku samtökunum The Nature Conservancy heimsóttu Ísland nýverið til að kanna áhuga á samstarfi um sjálfbærar veiðar og myndavélaeftirlit.

Útgerðarmenn hér á landi hafa látið í ljósi efasemdir um myndavélareftirlit um borð í skipum, og benda þá meðal annars á persónuverndarsjónarmið og vísa einnig til þess að myndefnið yrði svo mikið að töluverðan mannafla þyrfti til að fara yfir það allt.

Þeir Craig Heberer og Christopher McGuire segja þó persónuverndarsjónarmið í hávegum höfð.

„Við erum ekki að fylgjast með sjómönnunum heldur fiskinum. Það eru engar myndavélar þar sem sem enginn fiskur er,“ segir Craig.

Til framtíðar litið yrði myndefnið aldrei notað óunnið í neinum mæli, segja þeir, því fyrst þurfi að ná út úr því upplýsingum um aflann.

„Víðast hvar er reyndar enn verið að láta fólk horfa á myndefnið en stefnan er að koma þeirri vinnu yfir í sjálfvirkan greiningarbúnað í tölvum. Vandinn er sá að ef tölva á að þekkja fisktegundir í sundur þá þarf óskaplega mikið magn af myndum. Þar er verkefni framtíðarinnar og við höfum verið að fjárfesta í því,“ segir Christopher.

Sækja ekki í átök

The Nature Conservancy eru bandarísk náttúruverndarsamtök, býsna öflug með meira en milljón meðlimi, meira en 400 vísindamenn innanborðs og starfsemin teygir anga sína til 79 landa í öllum heimsálfum.

Þeir leggja mikla áherslu á að samtök þeirra sækist ekki eftir átökum heldur samstarfi við hagsmunaaðila og stjórnvöld á hverjum stað.

„Við nálgumst hlutina úr frá vísindalegu sjónarmiði, reynum að skilgreina þau verkefni sem ráðast þarf í á sviði verndunar og drögum fram lausnir á þessum vandamálum,“ segir Chris. „Ýmis önnur óháð samtök leggja alla áhersluna á baráttu og hafa hátt, en okkar nálgun er sú að ræða beint við sjómenn og aðra í greininni. Þar segjum við að enginn hafi meiri hagsmuni af því að fiskveiðum sé vel stjórnað.“

Christopher er yfirmaður haftengdra verkefna hjá samtökunum en Craig sér um eftirlitsverkefni með túnfiskveiðum víða um heim.

Ísland gæti tapað forystunni

Þeir heimsóttu Ísland í nóvember, sóttu Sjávarútvegsráðstefnuna í Hörpu og áttu fundi með fulltrúum bæði stjórnvalda og úr greininni.

Chris segir að þegar horft er til Íslands utan frá líti margir svo á að við höfum verið leiðandi afl í fiskveiðistjórnun. Ekki sé þó hægt að ganga frá því sem vísu að Ísland haldi þeirri stöðu sinni.

„Í okkar starfi sjáum við víða um heim að verið er að koma á miklu víðtækara eftirliti með myndavélabúnaði. Ísland gæti hæglega setið eftir í þeiri þróun og tapað forystusæti sínu á þessu sviði býsna hratt. Ég er ekki viss um að þið mynduð vilja það.“

Chris segir frá því að í nýlegri skýrslu hafi verið greint frá því að á heimsvísu séu rúmlega þúsund skip komin með myndavélakerfi um borð sem tryggir 100 prósent eftirlit með veiðunum. Eftir fimm ár megi búast við að kannski fimm eða tíu þúsund skip verði komin með slíkan búnað, en það fer þó eftir því hve hröð þróunin verður.

Kröfurnar hertar

„Ef nýjungar í gervigreind verða til þess að lækka kostnað þá gerist þetta hraðar. En við höfum fyrst og fremst lagt áherslu á stærri útgerðir og arðbærar veiðar, því þær hafa efni á slíkum búnaði og geta nýtt sér hann til að ná auknum verðmætum úr veiðunum. Þetta eru mest annað hvort MSC-vottaðar veiðar eða veiðar sem stefnt er að því að fá MSC-vottun á. Þetta geta verið túnfiskveiðar eða þorskveiðar eða hvað sem er, en áhuginn á því að fjárfesta í þessum búnaði er ekki síst til staðar vegna þess að í því getur verið fólgið ákveðið markaðsforskot.“

Hann bendir á að MSC sé alltaf að þróa staðla sína og gera þá strangari. Takmarkað eftirlit upp á kannski 15 prósent sé ekki lengur nein fyrirmynd, heldur er gert ráð fyrir 100 prósent eftirliti.

„Menn hækka viðmiðin og þá vilja allir fara þangað. Þetta verða arðbærar veiðar eins og þær sem stundaðar eru hér á landi.“