mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ísland í forgrunni á viðskiptaráðstefnu um sjávarútveg

1. mars 2019 kl. 12:15

Frá Bergen í Noregi

Sjávarútvegsráðstefnan North Atlantic Seafood Forum (NASF) verður haldin dagana 5.-7. mars í Bergen í Noregi.

North Atlantic Seafood Forum er stærsta viðskiptaráðstefna heims á sviði sjávarútvegs og fer hún fram árlega. Í ár verður Ísland gestaþjóð á ráðstefnunni, sem býður upp á ýmis tækifæri fyrir íslenska þátttakendur.   

Frá ráðstefnunni segir á vef Íslandsstofu. Þar segir:

Á fyrsta degi ráðstefnunnar verður boðið verður upp á kynningardagskrá og pallborðsumræður undir yfirskriftinni „Inspired by Iceland” þar sem um 20 íslensk fyrirtæki frá ýmsum sviðum sjávarútvegs taka þátt. Íslandsstofa framleiðir kynningaefni fyrir íslensku þátttökufyrirtækin undir þemanu „sjálfbærni, gæði og nýsköpun“.

Á ráðstefnunni verða málstofur um bolfisk, uppsjávarfisk og fiskeldi þar sem umhverfismál og sjálfbærni verða í brennidepli. Norræna ráðherranefndin skipuleggur auk þess málstofu um norrænan sjávarútveg og fjórðu iðnbyltinguna, samhliða ráðstefnunni.

Ráðstefnuna sækja árlega hátt í þúsund manns sem flestir eru stjórnendur fyrirtækja á ýmsum sviðum sjávarútvegs, svo sem fiskveiða og vinnslu, fiskeldis, markaðssetningar og sölu, en einnig fulltrúar fyrirtækja sem þjónusta sjávarútveg og fiskeldi, svo sem á sviði tækni, fjármögnunar, fjárfestinga, flutninga og trygginga.

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs setur ráðstefnuna, en auk hennar munu Peter Thomson, yfirmaður málefna hafsins hjá Sameinuðu Þjóðunum og Árni Mathiesen, aðstoðarforstjóri Matvælastofnunar Sameinuðu Þjóðanna FAO ávarpa ráðstefnugesti. Meðal íslenskra fyrirlesara má nefna Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og Guðmund Kristjánsson, forstjóra HB Granda.

Þá eru tvö íslensk fyrirtæki þátttakendur í nýsköpunarkeppni NASF 2019 sem fer fram 7. mars. Það eru fyrirtækin Margildi og Sea Data Center sem eru fulltrúar Íslands en 12 fyrirtæki víðs vegar að voru valin úr hópi 45 umsækjenda.