sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ísland með tæp 2% af heimsverslun sjávarafurða

11. apríl 2012 kl. 15:40

Úr fiskvinnslu á Íslandi. (Mynd: HAG)

Kínverjar með þriðjungs hlut í veiðum og eldi í veröldinni.

Heimsverslun með sjávarafurðir nam jafnvirði rösklega 12.300 milljarða íslenskra króna á árinu 2009 og hafði minnkað um 7% frá metárinu 2008. Á árinu 2009 nam verðmæti útfluttra sjávarafurða frá Íslandi 208 milljörðum króna þannig að hlutur Íslendinga hefur verið um 1,7% af heimsversluninni með fisk.

Alls nam út- og innflutningur fisks í heiminum 55 milljónum tonna árið 2009, samkvæmt nýjustu tölum FAO. Um þriðjungur af öllum fiski úr veiðum og eldi í veröldinni er í höndum Kínverja. Þeir fluttu út 3 milljónir tonna af fiski á þessu tiltekna ári en fluttu á sama tíma inn um 4 milljónir tonna. Bæði inn- og útflutningur Kínverja hefur aukist um 1,5 milljónir tonna frá árinu 2000. Sem dæmi um hina stórstígu aukningu í eldi í Kína má nefna að árið 2000 nam framleiðsla eldisfisks og þörunga 29 milljónum tonna en var komin upp í 45 milljónir árið 2009.

Bandaríkin og Japan eru stærstu innflutningslönd sjávarafurða en Evrópa er mikilvægasta viðskiptasvæðið með fisk. Þar fara 46% fiskverslunarinnar í heiminum fram.

Frá þessu er skýrt í norska blaðinu Fiskeribladet/Fiskaren.