föstudagur, 14. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ísland nítjánda stærsta fiskveiðiþjóð heims

27. nóvember 2017 kl. 12:00

Skip í Reykjavíkurhöfn

Rússland er stærsta fiskveiðiþjóð Evrópu.

Fiskveiðar á heimsvísu námu 92 milljón tonnum á árinu 2016 og hafa aukist um 10% frá árinu 1990. Þá var mest veitt af uppsjávarfiski og námu veiðarnar 35 milljón tonnum eða um 38% af heildarveiðum.

Frá þessu segir í skýrslu Íslandsbanka; Íslenskur sjávarútvegur 2017.

Þar segir einnig að Asía veiðir mest á heimsvísu eða 51 milljón tonn sem nemur 55% af veiðum á heimsvísu. Kína er stærsta fiskveiðiþjóð í heimi og veiðar Kínverja voru 18 milljón tonn á árinu 2016 eða um 19% af veiðum á heimsvísu.

Ennfremur að Ísland situr í 19. sæti stærstu fiskveiðiþjóða heims miðað við árið 2015 með um 1,2% hlutdeild á heimsvísu. Ísland hefur færst neðar á þessum lista síðustu ár þar sem aðrar þjóðir hafa aukið veiðar sínar umfram Ísland.

Rússland er stærsta fiskveiðiþjóð Evrópu. Rússar veiddu um 4,5 milljónir tonna á árinu 2016 eða sem nemur 31% af veiðum í Evrópu. Í Evrópu veiða Íslendingar mest á hvern íbúa næst á eftir Færeyingum eða um 3,2 tonn á mann.