föstudagur, 22. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Íslandsbanki varar við áhrifum frumvarpsins

4. mars 2013 kl. 15:34

Þorskar.

Ekki sýnt fram á að markmið um þjóðhagslegan ávinning verði náð

Íslandsbanki telur óhjákvæmilegt að taka tillit til þeirrar miklu gjaldtöku sem hækkun veiðigjaldanna hefur í för með sér á rekstur sjávarútvegsfyrirtækjanna, segir í umfjöllun bankans um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Bankinn varar við að enn frekari hömlur verði lagðar á rekstrarumhverfi sjávarútvegsins og að stjórnun greinarinnar verði færð í auknum mæli undir ákvörðunarvald ráðherra. Vakin er athygli á þessu á heimasíðu LÍÚ.

„Einungis með öflugum fyrirtækjum í greininni má tryggja að auðlindin færi þann arð sem hún hefur burði til. Markmið frumvarpsins er að hámarka þjóðhagslegan ávinning af sjávarauðlindinni, að sjávarútvegurinn sé arðsamur og búi við hagstætt og stöðugt rekstrarumhverfi. Að mati Íslandsbanka hefur ekki verið sýnt fram á að þessum markmiðum veðri náð með frumvarpinu. Annað markmið frumvarpsins er að stuðla að nýliðun í greininni og ekki verður séð að frumvarpið sé til þess fallið að ná því markmiði. Auknum aflaheimildum í gegnum Kvótaþing er ætlað að stuðla að nýliðun í greininni en útgerð byggð á leigukvóta hefur ekki reynst arðsöm. Takmörkun á framsali aflahlutdeildar mun einnig gera nýliðum erfitt fyrir að fjármagna innkomu í sjávarútveg. „

Þá gagnrýnir bankinn fyrirætlan stjórnvalda að koma á kvótaþingi:

„Á árunum 1998-2001 var starfrækt Kvótaþing Íslands sem var tilboðsmarkaðar með aflamark. Hlutverk Kvótaþings var svipað því sem sett er fram í nýju frumvarpi. Starfsemi þingsins var hætt árið 2001 þar sem það þótti ekki hafa skilað tilætluðum árangri. Af þessum sökum er hægt að velta upp þeirri spurningu hvort að betri árangur náist í dag."

Og ennfremur segir í umsögn Íslandsbanka:

„Frumvarpið er á margan hátt óskýrt og mikil óvissa er tengd nokkrum lykilatriðum frumvarpsins. Víða er kveðið á um að ráðherra sé heimilt eða eigi, fyrir ákveðna dagsetningu, að setja fram reglugerðir eða ný frumvörp sem skipta miklu máli varðandi framtíðarþróun íslensks sjávarútvegs og því erfitt að meta möguleg áhrif þess á sjávarútveginn."

Hægt er að lesa umsögn Íslandsbanka í heild sinni hér.