föstudagur, 7. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Íslandsmet sett í lengingu

1. desember 2017 kl. 13:34

Stormur HF, rafdrifið línu- og netaskip, tilbúið til veiða.

Lurkurinn verður að Stormi HF

Breytingum er lokið á Stormi HF í skipasmíðastöð í Gdansk í Póllandi. Verkefnið er á allan hátt merkilegt. Fyrir það fyrsta var sett met í lengingu íslensks skips og í annan stað verður skipið rafknúið og með pláss í lest fyrir allt að 400 tonn af frystum afurðum.

Árið 2005 hófst smíði á skipi á Nýfundnalandi sem átti að átti að gera þaðan út á rækju og grálúðunet. Skipið féll inn í ákveðna reglugerð sem var í gildi þar í landi og var 25 metrar á lengd og 9,20 metrar á breidd. Til stóð að skrá hann í þessari lengd en síðan að lengja hann. Smíðin var fjármögnuð af Landsbankanum og í hruninu komst það í eigu þrotabús bankans. Þá hafði verð lokið við um 80% af smíði skipsins. Það hafði verið til sölu í mörg ár þegar Stormur Seafood keypti það loks árið 2015.

„Við komumst að þeirri niðurstöðu að þetta væri fyrirtaks skip til að breyta. Skipið var nýtt og ónotað. Við sömdum við Landsbankann og fengum það á ágætu verði,“ segir Steindór Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri Storms Seafood.

Hagkvæmara en að kaupa nýtt skip

Skipið var dregið frá Nýfundnalandi til Gdansk í Póllandi og tók ferðin mánuð. Upphaflega hugmyndin var sú að breyta því í dragnótarskip en hún þróaðist á þann hátt að gera úr því línu- og netaskip.

Heil Facebook síða er helguð skipinu sem þar gengur undir nafninu Lurkurinn. Tvö ár tók að breyta skipinu. Það var skorið í tvennt um miðjuna og lengt um 23 metra. „Þetta er Íslandsmet í lengingu. Eyborg ST átti fyrra met en það var lenging upp á 19 metra.“

Steindór segir að fjárhagslega hafi það komið betur út að láta breyta skipinu en að kaupa nýtt.

Lengingin var smíðuð í annarri skipasmíðastöð og henni skeytt saman við skipið.

Rafdrifið brunnskip

„Þetta var flókið verkefni.  Teikningar af upphaflega skipinu voru af skornum skammti og það þurfti að vinna mjög mikla vinnu í að koma slíkum málum í góðan farveg  áður en hafist var handa við breytingarnar.   En nú er skipið tilbúið til notkunar og við erum mjög ánægðir með útkomuna. Upphaflega var það hannað til að vera rafdrifið, en við vorum ekki sáttir við þann drifbúnað sem fylgdi skipinu.   Þess vegna keyptum  við og settum í það Scana Volda rafmótor, en héldum þremur nýjum Caterpillar ljósavélum sem í upphaflega skipinu voru. Þær drífa áfram drifmótorinn og sinna öðrum orkuþörfum skipsins. Við áætlum að olíueyðsla skipsins sé um helmingi minni en í hefðbundnu skipi af svipaðri stærð,“ segir Steindór.

Þetta er nýjung hér á landi en þekkt, t.a.m. í Noregi. Það sem einnig vinnst við það að hafa skipið rafdrifið er að lestarrýmið verður mjög stórt miðað við skip af þessari stærð. Hægt er að koma fyrir í lestinni 456 kerum með samtals um 140 tonn af ferskum fisk og um 400 tonn af frystri afurð.

„Lestin er því litlu minni en í nýjum togurum HB Granda. Í norskum bátum hefur þekkst í mörg ár að draga línuna í gegnum miðjubrunn en á skipinu okkar er hliðarbrunnur, sem er einnig þekkt tækni frá Noregi og hefur verið notuð í á annan áratug þar með góðum árangri. Fiskurinn fer því nánast aldrei upp úr sjó heldur í gegnum lúgu á hliðinni. Þetta eykur til muna öryggið til sjós þar sem enginn stendur í lúgu við línudrátt, nema til að taka færi.   Einnig heyra goggstungur sögunni til með þessu kerfi og því mun betra hráefni sem skilar sér til vinnslu.“

Skipið er með nýrri beitningarvél frá Mustad og nánast sama kerfi og í norska línubátnum Loran sem hefur verið aflahæsti línubáturinn í Noregi í mörg ár.

„Við munum nú á endanum líklega aldrei gera þetta skip út því ég hef ákveðið að selja það og fyrirtækið Storm Seafood einnig. Fyrir því liggja ýmsar, persónulegar ástæður,“ segir Steindór.