föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Íslendingar lýsa áhyggjum af ákvörðun Færeyinga

28. maí 2013 kl. 12:05

Síld

Færeyingar útskýra málstað sinn í síldinni fyrir öðrum ríkjum.

Í gær var haldinn í Reykjavík tvíhliða fundur fulltrúa Íslands og Færeyja vegna þeirrar stöðu sem uppi er vegna veiða á norsk-íslenskri síld á árinu 2013. Á fundinum, sem haldin var að ósk Færeyinga, útskýrðu færeysku fulltrúarnir málstað sinn og einnig var upplýst að þeir muni eiga viðræður við önnur strandríki innan tíðar.

Svo sem kunnugt er gerðust Færeyingar ekki  aðilar að samkomulagi strandríkjanna sem undirritað var í janúar síðastliðnum. Þeir settu sér í kjölfarið einhliða kvóta  upp á 105 þúsund lestir sem svarar til 17% af heildarveiði ársins sem er 619.000 lestir samkvæmt ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknaráðsins. Þessi ákvörðun felur í sér rúmlega þreföldun gildandi hlutdeildar Færeyinga úr 5,16%  frá samkomulagi strandríkjanna sem gilt hefur frá árinu 2007. Til samanburðar er samsvarandi hlutur Íslands samkvæmt fyrrgreindu samkomulagi 14,51% og nema veiðiheimildir íslenskra skipa því tæplega 90 þúsund lestum á árinu 2013.

Fulltrúar Íslands áréttuðu afstöðu Íslands, sem hafði m.a. komið fram í bréfi til færeyskra stjórnvalda, að þreföldun hlutdeildar Færeyinga sé óásættanleg fyrir íslenska hagsmuni.

Íslendingar lýstu yfir þungum áhyggjum af stöðu stofnsins, sem hefur minnkað um meira en helming á síðustu fjórum árum en nýliðun hefur verið afar slök. Samkvæmt gildandi aflareglu nálgast stærð hrygningarstofnsins þau gátmörk þar sem draga þarf verulega úr veiðiálagi til að  forðast hrun í stofninum.

 

Formaður íslensku sendinefndarinnar var Kristján Skarphéðinsson ráðuneytisstjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Frá þessu er skýrt á vef atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins.