mánudagur, 8. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Íslendingar önnur stærst fiskveiðiþjóðin í NA-Atlantshafi

2. janúar 2011 kl. 11:00

Íslendingar eru í öðru sæti yfir mestu fiskveiðiþjóðir í Norðaustur-Atlantshafi en Norðmenn eru langefstir með rúmlega fjórðung aflans á þessu hafsvæði, að því er fram kemur í nýrri skýrslu frá Hagstofunni um heimsaflann 2008. Norðaustur-Atlantshaf markast af hafsvæðinu norður af 36°00’ norðlægrar breiddar og austur af 42°00’ vestlægrar lengdar. Heildarafli úr Norðaustur-Atlantshafi var 8,6 milljónir tonna árið 2008 sem er tæplega 335 þúsundum tonna minni afli en árið 2007. Lítil breyting hefur orðið á listanum yfir þau ríki sem veiða mest á þessu hafsvæði. Sömu þjóðir raða sér í tíu efstu sætin árið 2008 og árið á undan. Mest veiddu Norðmenn um 2,4 milljónir tonna eða 27,6% aflans, Íslendingar veiddu 1,3 milljónir tonna eða 15% en Rússar veiddu 831 þúsund tonn og Danir 686 þúsund tonn. Tvær tegundir af uppsjávarfiski úr Norðaustur-Atlantshafi veiddust í yfir einni milljón tonnum árið 2008. Alls veiddust um 2,3 milljónir tonna af síld, sem er 6,1% aukning frá fyrra ári, og 1,3 milljónir tonna af kolmunna en það er 23,6% samdráttur frá 2007. Af botnfisktegundum í Norðaustur-Atlantshafi veiddist mest af þorski, 709 þúsund tonn eða 8,3% heildaraflans, ufsaaflinn var 441 þúsund tonn eða 2,9% og ýsuaflinn 305 þúsund tonn eða 3,6% af heildaraflanum í NA-Atlantshafi árið 2008