miðvikudagur, 20. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Íslendingar votta veiðar í Suðurhöfum

Guðsteinn Bjarnason
5. ágúst 2019 kl. 07:00

Rækjubátar sem gerðir eru út frá strönd Guyana. MYND/Tristan Southall

Vottunarstofan Tún ehf. hefur lokið við vottun á rækjuveiðum við Guyana samkvæmt staðli MSC.

Þegar stjórnvöld í Guyana í Suður-Ameríku hugðust leita eftir MSC-vottun á rækjuveiðar þar í landi var ákveðið að leita til íslensks fyrirtækis, Vottunarstofunnar Tún ehf., til að sjá um vottunina.

Fiskifréttir ræddu í vor við Gunnar Gunnarsson, framkvæmdastjóra Vottunarstofunnar Tún ehf., og sagði hann þetta verkefni hafa verið að mörgu leyti mjög áhugavert.

„Rækjuveiðarnar í Guyana eru mjög áhugaverðar út frá því sjónarmiði að á einhverju stigi málsins gera þeir sem eru að markaðssetja þessar afurðir sér grein fyrir því að stofninn kunni að vera í hættu ef ekki er gripið til ráðstafana,“ sagði Gunnar.

Nú er vottunin í höfn, Marine Stewardship Council (MSC) hefur gefið út tilkynningu þess efnis en það er Vottunarstofan Tún sem sá um matið sem óháður aðili. Tún hefur á undanförnum séð um vottun sjálfbærra veiða úr fiskistofnum hér við land samkvæmt MSC-staðli, en þetta er í fyrsta sinn sem fyrirtækið vottar veiðar utan Íslands.

Rækjan mikilvæg
Guyana er á norðausturströnd Suður-Ameríku, austan við Venesúela. Flatarmál landsins er um 215 þúsund ferkílómetrar og þar búa um 780 þúsund manns.

„Rækjan er mjög mikilvægur fiskistofn fyrir það land. Lengi vel voru þetta fyrst og fremst smábátasjómenn sem sinntu þessum veiðum við Guyana, en á einhverju tímabili aukast þarna verulega veiðar og sérstaklega með tengingu við Evrópu og fyrirtæki í Evrópu.“

Þessi þróun hófst stuttu fyrir síðustu aldamót. Þá fóru veiðarnar yfir 10 þúsund tonn og hafa eftir aldamótin verið að sveiflast frá 15 þúsund tonnum upp í 25 þúsund tonn.

Rækjutegundin, sem veidd er í Guyana, hefur verið nefnd skeggrækja á íslensku en nefnist seabob á ensku. Hún er veidd með bæði botnvörpum og rækjuvörpum, verður um 18 mánaða gömul og heldur sig yfirleitt á leirbotni eða sandbotni í hafi eða ísöltu vatni.

Svæðisstjórinn stoltur
Brian Perkins, svæðisstjóri MSC í Ameríku, óskar samtökum útgerðar og vinnslu í Guyana til hamingju með árangurinn og segist stoltur af því að rækjuveiðarnar þar séu komnar með MSC-vottun.

„Rækjuútgerðin í Guyana hefur sýnt fram á mikilvægi sjálfbærra veiða með því að gera úrbætur og standast kröfur MSC-staðalsins,“ er haft eftir honum í tilkynningu frá MSC.

Þetta er í fyrsta sinn sem veiðar í Guyana hljóta vottun, en nágrannaríkið Súrínam hafði áður tryggt sér MSC-vottun á rækjuveiðar sínar.