fimmtudagur, 24. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Íslendingur aflahæsti smábátaskipstjóri í Noregi

15. október 2009 kl. 15:15

Helgi Sigvaldason, Íslendingur með norskan ríkisborgararétt, var aflahæsti smábátaskipstjórinn í Noregi á síðasta ári. Hann notar ,,íslensku leiðina”, er á beitningarvélabáti, Saga K, og eltir fiskinn milli útgerðarsvæða, að því er fram kemur í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.

Helgi hefur búið í Noregi í nokkur ár og stundað sjóinn þar og unnið í landi við fiskeldi. Hann fékk fjárfesta í lið með sér og þeir létu smíða fyrir sig bátinn Saga K hjá Trefjum í Hafnarfirði. Saga K er beitningarvélabátur með 13 þúsund krókum. Helgi sagði að í sjálfu sér væri það ekki stórmál að hefja útgerð á smábáti í Noregi. Þeir keyptu sig inn í kerfið með því að fjárfesta í 35 tonna þorskkvóta en veiðar smábáta á flestum öðrum tegundum eru frjálsar, svo sem veiðar á ýsu, steinbít, löngu og keilu.

Þeir félagar fengu bátinn í apríl á síðasta ári. Helgi sagði að í fyrstu hefðu þeir þurft að glíma við ýmsa barnasjúkdóma en þeir hefðu þó náð góðum sex mánuðum á síðasta ári við veiðarnar. Þeir veiddu alls 402 tonn á árinu 2008 og urðu aflahæstir í Noregi í flokki smábáta innan við 11 metra að lengd. Afli Saga K var aðallega ýsa og vakti árangur bátsins athygli í Noregi. Á vef norska blaðsins Fiskeribladet/Fiskaren mátti lesa fyrirsögnina: Her er Norges nye “hysekonge” sem útleggst: Hér er nýr ,,ýsukóngur” Noregs. Í fréttinni segir að árangur Saga K sé vægast sagt athyglisverður. Báturinn hafi veitt nærri 100 tonnum meira af ýsu en næsti bátur í sama stærðarflokki.

Sjá nánar ítarlegt viðtal við Helga Sigvaldason í Fiskifréttum.