mánudagur, 10. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Íslenski túnfiskkvótinn veiddur

24. júlí 2008 kl. 14:30

Íslenski túnfiskkvótinn, liðlega 50 tonn, var veiddur upp á tíu dögum í Miðjarðarhafinu í kringum síðustu mánaðamót, nánar tiltekið við lögsögumörk Líbýu. Útgerð Eyborgar EA var handhafi kvótans en líbýskir samstarfsaðilar hennar sáu um veiðarnar. Túnfiskurinn hefur verið seldur til áframeldis á Möltu.

Að sögn Birgis Sigurjónssonar í Hrísey, sem gerir Eyborgina út, mátti ekki tæpara standa að unnt yrði að nýta kvótann því veiðitíminn var að renna út. Alls veiddust 460 bláuggatúnfiskar og var meðalþyngd þeirra um 115 kíló. Undanfarin ár hefur Ísland fengið kvóta í bláuggatúnfiski frá Atlantshafstúnfiskveiðiráðinu en ekki getað nýtt hann fyrr en nú.

Eyborgin hefur verið staðsett í Miðjarðarhafinu undanfarin ár. Skipið hefur haft verkefni við að draga túnfisknætur hluta úr ári en einnig reynt fyrir sér á risarækjuveiðum utan lögsagna í Miðjarðarhafinu þar sem veiðar eru frjálsar.