þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Íslenskur þorskur við Jan Mayen

Guðsteinn Bjarnason
24. janúar 2019 kl. 09:25

Norska hafrannsóknastofnunin segir þorskinn sem veiddist við Jan Mayen í haust hafi verið bæði Barentshafsþorskur og íslenskur þorskur.

Bæði erfðaefnisrannsóknir og rannsóknir á kvörnum úr þorskinum sem veiddist við Jan Mayen í haust sýna að þetta voru þorskar bæði úr íslenska þorskstofninum og Barentshafsþorskur. Hluti Barentshafsþorsksins var þó stærri.

Norska hafrannsóknastofnunin, Havforskningsinstituttet, greinir frá þessu. 

„Af 86 fiskum voru 82 lengri en 65 sentimetrar og níu ára gamlir hið minnsta, og þetta var blanda af Barentshafsþorski og Íslandsþorski,“ segir vísindamaðurinn Bjarte Bogstad, sem sinnir rannsóknum á Barentshafsþorski hjá norsku stofnuninni.

Það var norski báturinn Loran frá Godøya sem óvænt fékk vænan þorskafla í netin síðastliðið sumar, en venjulega fæst þar aðseins lítið magn af þorski. Í þriðja túrnum landaði báturinn 300 tonnum af þorski og 70 tonnum af grálúðu í Álasundi.

Ekki var ljóst um hvaða þorskstofn var að ræða, enda hafa þorskveiðar aldrei verið stundaðar við Jan Mayen að nokkru marki. 

Hafrannsóknastofnun Noregs fékk þorskana til rannsóknar í september og nú er þeim rannsóknum lokið.

Stofnunin hyggst gera fleiri rannsóknir á þessu ári. Haldið verður í leiðangur á miðin við Jan Mayen til að finna hvort og þá hvar þorskurinn heldur sig.