sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Jafnar aðföng til vinnslunnar

Guðjón Guðmundsson
9. september 2021 kl. 09:40

Gamli Bergur VE, nú Jóhanna Gísladóttir GK 357, í Slippnum í Reykjavík. Mynd/Svavar

Togarinn Bergur VE skiptir um kyn og verður Jóhanna Gísladóttir GK.

Stefnt er að því að sjávarútvegsfyrirtækið Vísir í Grindavík taki um næstu mánaðamót  í notkun nýja Jóhönnu Gísladóttur GK, áður Berg VE. Togarinn hefur að undanförnu verið í Slippnum í Reykjavík þar sem hann hefur verið yfirfarinn og ýmis smáatriði löguð auk þess sem hann er kominn í grænan lit Vísismanna og ber nafnið Jóhanna Gísladóttir.

Undanfarið ár hefur Vísir verið með Bylgju VE frá Vestmannaeyjum í leigu en leigusamningurinn rann út í júlí og á sama tíma keypti Vísir Berg VE sem var í eigu samnefndrar útgerðar í Vestmannaeyjum.

Vísir er þekkt fyrir útgerð stórra línubáta og er eitt þeirra fyrirtækja sem hefur fjárfest í nýjustu vinnslutækni fyrir ferskfiskvinnslu sína.

„Nýja Jóhanna Gísladóttir er alveg ljómandi gott og vandað skip. En hún felur ekki í sér neina stefnubreytingu af okkar hálfu, þ.e.a.s. að við séum að leggja minni áherslu en áður á línuveiðar. Við höfum stundum verið í vandræðum með það hve lítið fiskirí getur verið á línu á sumrin. Það hefur oft verið ansi trekt svona síðsumars. Þessi ólíku veiðarfæri styðja hvert annað og jafnar aðföngin fyrir vinnsluna," segir Kjartan Viðarsson, útgerðarstjóri hjá Vísi.

Eltir fiskinn

Kjartan segir að togaraveiddur fiskur henti ágætlega inni í ákveðna flokka vinnslunnar, þ.e.a.s. í kringum frystinguna. Línufiskurinn fer jafnt í ferskfiskvinnslu og söltun.

„Jóhanna Gísladóttir verður bara þar sem er fiskur. Við erum að vonast til þess að hún fari á veiðar strax um mánaðamótin september-október. Við erum bara að fara yfir skipið núna og klappa því aðeins og svo verðum við klárir í upphfi nýs fiskveiðiárs.”

Vísir hefur ekki enn tekið formlega við skipinu og verður það ekki gert fyrr en um næstu helgi. Gamla Jóhanna Gísladóttir var smíðuð á Akranesi árið 1969 og var lengd árið 1997. Þá var gerð breyting á lestum, yfirbyggingu og vél 2005. Skipið er 57 m á lengd og er enn á veiðum fyrir Vísi. Því verður ekki lagt fyrr en fyrsta lagi þegar nýja Jóhanna fer af stað til veiða.

„Þegar nýja skipið fer í drift þá tökum við gömlu Jóhönnu heim og stoppum hana af alla vega fyrst um sinn. Þá skoðum við hvernig framtíðar hlutverk hennar verður. Það hafa þó nokkrir aðilar sýnt skipinu áhuga en engin ákvörðun hefur verið tekin um framhaldið. Gamla Jóhanna er í fínu standi og vel útbúið skip," segir Kjartan.

Hann segir að almennt fari veiðarnar bara ágætlega af stað í upphafi kvótaársins. Það sé vissulega ekki kominn haustkraftur í veiðarnar en þær fari sem vel af stað. Vísisbátarnir hafa verið fyrir norðan og vestan og talsvert landað á Ísafirði. Þaðan er aflinn fluttur landleiðina til vinnslunnar í Grindavík.