sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Japan:190 milljarða fjárfesting í sjávarútvegi

16. ágúst 2010 kl. 11:00

Japanska risafyrirtækið Nomura Securities Co vinnur að stofnun sjóðs sem fjárfestir einöngu í útgerð og fyrirtækjum tengdum sjávarútvegi. Ráðgert er að safna um 1,6 milljörðum USD í sjóðinn sem eru litlir 190 milljarðar íslenskra króna. Frá þessu er greint á fréttavefnum fis.com og jafnframt tekið fram að þetta megi teljast sjávarútvegsfrétt ársins.

Forsvarsmenn Nomura Securities Co segja að sjávarútvegur sé vaxandi atvinnugrein til langs tíma litið. Fiskneysla eigi eftir að aukast í Bandaríkjunum og Evrópu þar sem fólk geri sér í auknum mæli grein fyrir hollustu fisks. Eftirspurn eftir fiski er einnig talin eiga eftir að aukast í þróunarlöndunum.

Áætlað er að 30% af fjármunum sjóðsins verði notuð til fjárfestingar í Japan, 40% til fjárfestingar í Bandaríkjunum. Einnig verður fjárfest í Tælandi og Brasilíu og í þróuðum sjávarútvegslöndum eins og Noregi.