þriðjudagur, 28. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Japanir efla eldi á styrjum

8. febrúar 2016 kl. 11:57

Styrjuhrogn

Kavíar frá Japan fluttur út í samkeppni við kavíar frá Rússlandi og Íran

Japanir eru að hefja útflutning á kavíar sem framleiddur er úr styrjum sem aldar eru í fiskeldisstöð í Miyazaki héraði á eyjunni Kyushu syðst í Japan, að því er fram kemur á vefnum fis.com. 

Japönsk stjórnvöld binda vonir við að styrjueldið hjálpi til við að leysa vanda fiskeldis í Japan. Verðmæti fiskeldis í Japan er um 4 milljarðar dollara á ári (um 510 milljarða ISK). Fiskeldið hefur átt undir högg að sækja undanfarin ár vegna samkeppni við ódýran innflutning. 

Styrjurnar í Miyazaki eru sagðar gefa af sér 3,5 kíló af hrognum hver, sem er 50% meira en venjulega þekkist í þessari grein. Sem kunnugt er hafa veiðar á villtri styrju dregist stórlega saman. Verð á kavíar hefur því hækkað sem örvar framleiðslu á eldisstyrjum. Styrjueldið hefur skapað mörg ný störf í Miyazaki. Stefnt er að því að velta eldisins fari í 83,9 milljónir dollara í ár (10,7 milljarða ISK) sem er 30% aukning frá árinu 2015.

Nú er japanskur kavíar sem sagt tilbúinn til útflutnings í samkeppni við kavíar frá Rússlandi og Íran sem hingað til hefur verið ráðandi á heimsmarkaðnum.