laugardagur, 16. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Japanir mótmæla túnfiskbanni harðlega

27. febrúar 2010 kl. 14:40

Japönsk stjórnvöld hafa harðlega mótmælt áformum um að setja Atlantshafs bláuggatúnfisk á lista yfir dýr í útrýmingarhættu og banna milliríkjaviðskipti með hann.

Japanir borða þrjá fjórðu af öllum veiddum bláuggatúnfiski bæði úr Atlantshafi og Kyrrahafi enda er hann vinsæll í sushi og aðra fiskrétti sem Japanir hafa dálæti á. Stjórnvöld í Japan vilja að beitt verði öðrum ráðum en verslunarbanni til þess að stuðla að því að því að þessi túnfisktegund verði nýtt á sjálfbæran hátt.

Atlantshafstúnfiskurinn heldur sig í Miðjarðarhafi og Norður-Atlantshafi, meðal annars suður af Íslandi. Vísindamenn segja að stofninn hafi minnkað um 80% á síðustu áratugum vegna ofveiði og með sama áframhaldi stefni í að honum verði útrýmt, að því er fram kemur á vefnum Fis.com. 

Evrópuþingið hvatti framkvæmdastjórn ESB nýlega til að styðja bann við verslun með Atlantshafs bláuggatúnfisk. Frakkar, sem eru stærstu framleiðendur bláuggatúnfisks innan ESB, eru fylgjandi banninu en aðeins í takmarkaðan tíma. Stjórnvöld á Spáni, Grikklandi, Kýpur og Möltu eru hins vegar andvíg banni.

Í næsta mánuði verður haldinn í Doha í Quatar ársfundur kenndur við CITES sem er samningur um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu. CITES er undir hatti Sameinuðu þjóðanna og aðilar að samningnum eru 175 þjóðir heims, þeirra á meðal Ísland. Á þessum fundi mun það ráðast hvort Atlantshafs bláuggatúnfiskurinn verður settur á bannlista samtakanna.