sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Joe Borg: Endurskoða þarf fiskveiðistjórnunarkerfi ESB

4. nóvember 2008 kl. 14:45

Joe Borg, fiskimálastjóri ESB, segir alvarleg brot á reglum fiskveiðistjórnunarkerfis sambandsins undirstrika nauðsyn þess að endurskoða kerfið.

Þetta kemur fram á vef LÍÚ.

„Án virkrar stjórnunar tekst okkur aldrei að snúa af þeirri braut hnignunar sem nú einkennir evrópskan sjávarútveg,“ segir Borg.   Þá kemur fram að brot á reglum fiskveiðistjórnunarkerfis Evrópusambandsins á árinu 2006 voru alls 10.362 talsins að því er kemur fram í sjöundu ársskýrslu framkvæmdastjórnar ESB.

„Þrátt fyrir að þetta séu um 1% færri brot en árið 2005 verður að hafa í huga að skipum í flotanum fækkaði um 10% á milli þessara ára,“ segir á vef LÍÚ.

Í skýrslunni kemur fram að þetta séu ekki tæmandi tölur þar sem þær byggja alfarið á upplýsingum einstakra aðildarríkja.

Borg segir í fréttatilkynningu, sem gefin var út í dag, að nauðsynlegt sé að gera þær breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu að reglur þess séu betra, sanngjarnari og stuðli að því að draga úr brotum.