laugardagur, 6. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Jólasúpa úr nýjasta landnemanum

Guðjón Guðmundsson
29. nóvember 2020 kl. 15:00

Krabbinn fannst fyrst árið 2006 í Hvalfirði og hefur dreift sér víða með ströndinni á undanförnum árum. Aðsend mynd

Royal Iceland veiddi um 10 tonn af grjótkrabba í haust

Royal Iceland í Njarðvík hyggst setja á innlendan markað afurðir úr einum nýjasta landnemanum við Íslandsstrendur, grjótkrabba. Þetta er líklega í fyrsta sinn sem krabbakjöt er boðið í smásölu hérlendis.

„Þetta er í fyrsta sinn sem grjótkrabbi er boðin í vöruformi fyrir neytendur en hann hefur verið seldur inn á veitingastaði,“ segir Davíð Freyr Jónsson hjá Royal Iceland sem er kunnur fyrir veiðar og vinnslu á tegundum sem eru mörgum Íslendingum framandi, eins og sæbjúgum, ígulkerjum og krabba.

Mikil hefð er fyrir krabbaneyslu víða um heim, ekki síst í Bandaríkjunum þar sem víða má finna sérhæfða krabbaréttastaði í borgum sem liggja að sjó. Hér hefur aldrei myndast hefð fyrir slíkri neyslu enda krabbaveiðar ekki verið stundaðar í atvinnuskyni fyrr en nú með landnámi grjótkrabbans. Hann er stórvaxin krabbategund og getur karldýrið orðið að 15 sentímetrar að skjaldarbreidd.

Allt stefnir í að verslanakeðjan Samkaup, sem rekur Nettó, Kjörbúðina, Krambúðina, Iceland og Samkaup, hefji sölu á grjótkrabba fyrir jól.

Royal Iceland veiddi á þessu hausti um 10 tonn af grjótkrabba og keypti auk þess nokkur tonn af öðrum sem fást við veiðar á grjótkrabba. Davíð Freyr segir að vonir standi til þess að veiðar á þessari tegund geti aukist.

Í veiðanlegu magni í Faxaflóa

„Grjótkrabbinn hefur náð útbreiðslu umhverfis allt landið en það segir ekki alla söguna um hversu þéttur hann er og veiðanlegur. Það eru eintök af honum ansi víða. Það eru nokkur svæði í Faxaflóanum þar sem hann er í það miklu magni að hann er veiðanlegur. Þau eru ekki mörg en altént nokkur. Veiðitímabilið er síðsumars og inn í haustið. Við byrjuðum núna í september og vorum við veiðar í rúmlega einn mánuð.“

Krabbinn er hreinsaður og pakkningunni fylgir einnig kjöt sem unnið er í sérstökum vélum hjá Royal Iceland. Pakkningin inniheldur sem sagt hráefni til súpugerðar fylgir honum uppskrift að súpu og er seld undir heitinu Konungleg krabbasúpa. Hver pakkning hentar í súpu fyrir sex manns eða um 1.200 millilítra. Þá á eftir að bæta út í hana öðrum hráefnum að vali hvers og eins, svo sem grænmeti og rjóma, koníaki eða hvítvíni, eftir smekk.

Grjótkrabbi fannst í fyrsta sinn við Ísland í ágúst árið 2006 í Hvalfirði. Líklegt þykir að landnám hafi  átt sér stað 7-8 árum áður. Talið er líklegast að tegundin hafi borist hingað til lands á lirfustigi í kjölfestuvatni skipa. Grjótkrabbi finnst hvergi annars staðar í Evrópu en hér við land.