sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra: Látum ekki hvarfla að okkur að ganga í ESB

18. júní 2009 kl. 15:00

vill ekki tjá sig um fyrningaleiðina né svara fyrir gagnrýni á hana

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra segir í viðtali við Fiskifréttir að við eigum að slá skjaldborg um íslenskan sjávarútveg og landbúnað og fullveldi Íslands og ekki láta það hvarfla að okkur að ganga í Evrópusambandið.

,,Eftir að hafa rætt við helstu talsmenn fiskveiða og fiskvinnslu í Bretlandi nýverið styrktist þessi skoðun mín enn frekar og var ég þó gallharður fyrir,“ segir Jón.

Sjávarútvegsráðherra vill ekki tjá sig um fyrningaleiðina né svara fyrir gagnrýni á hana. Hann segir að þessi mál séu nú til umfjöllunar í sérstökum starfshópi sem skipaður hefur verið.

,,Starfshópnum er ætlað að vinna að þessu máli og leiða það til lykta. Ég treysti honum vel til þess og ætla mér ekki að hafa áhrif á störf hans umfram það sem segir í skipunarbréfi hópsins. Sjávarútvegur er höfuðatvinnuvegur þjóðarinnar. Okkur ber skylda til að um hann ríki sátt meðal þjóðarinnar. Það er krafa mín til þessa starfshóps að hann hafi það rækilega í huga,“ segir Jón.

Hann segir ennfremur að ef í ljós komi í áliti hópsins að einhver ein leið reynist ófær eða talin rústa íslenskum sjávarútvegi segi sig sjálft að ekki verði mælt með henni.

Sjávarútvegsráðherra segir að þrátt fyrir mikla gagnrýni í fjölmiðlum á boðaðar frjálsar handfæraveiðar hafi hann heyrt í miklu fleirum sem fagni þeim.

,,Ef vel tekst til, eins og ég vona, stendur hugur minn til þess að víkka frjálsar handværaveiðar út þannig að þær verði ríkari þáttur í starfi sjómanna.“

Sjá nánar viðtal við sjávarútvegsráðherra í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.