miðvikudagur, 23. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Jón Svansson kominn með sex hákarla

Gudjon Gudmundsson
6. ágúst 2020 kl. 09:50

Jón Svansson á Vopnafirði hefur lengi veitt og verkað hákarla.

Verkunin gengur glimrandi

Jón Svansson, skipstjóri og hákarlaveiðimaður á Norðurljósi NS frá Vopnafirði, segir veiðar á hákarli ekki svip hjá sjón það sem af er árinu. Hann er kominn með 6 hákarla. Sumarið 2018 veiddi hann tuttugu dýr en 5 í fyrra. Hann segir þó bót í máli að verkunin sé takast með miklum ágætum núna. Hákarlinn selur Jón undir vörumerkinu Íslandshákarl. 

Jón lagði hákarlalínu snemma í maí, fljótlega eftir að grásleppuveiðar voru stöðvaðar. Hann hefur nú tekið hákarlalínuna upp tímabundið meðan hann einbeitir sér að strandveiðum. Sex krókar eru á línunni, 16-20 cm langir.  

„Ísfell hefur skaffað mér krókana og nokkrum öðrum sérvitringum sem stunda þetta ellihippasport. Þetta er svona hobbí fyrir gamalmenni en það er náttúrulega tóm vitleysa að vera að þessu. Þessum veiðum fylgir mikil áhætta og stundum ertu að eyða miklum peningum í ekki neitt. Stundum gengur þó vel og þá er voðalega gaman,“ segir Jón. 

Hann er nú kominn með sex hákarla og stefnir á fleiri þetta sumarið. Hann yrði sáttur fengi hann 12-13 dýr. 

Hannaður til að verða gamall

„Hákarlinn bara kemur og fer og er ekki staðbundinn. Grænlandshákarlinn er í öllu Norður-Atlantshafi og enginn veit nákvæmlega hvar hann heldur til eða hvar hann gýtur. Það er fátt vitað um hann annað en að hann verður mjög gamall. Hann er líka hannaður til þess að verða gamall. Hann er dálítið eins og bílar voru hannaðir í gamla daga. Það er nefnilega ekki mikið af aukadóti á hákarlinum. Maginn er einfaldur og garnakerfið mjög einfalt og fátt sem getur bilað,“ segir Jón sem hefur stundað hákarlaveiðar um árabil. 

Hákarlarnir sex sem Jón hefur fengið eru 14-15 fet á lengd eða u.þ.b. 4-5 metrar. Jón hefur sótt á gömul og hefðbundin mið en hann hefur líka reynt fyrir sér á nýjum blettum sem hafa gefið alveg jafn vel. 

„Þetta er bara spurning um að vera með góða beitu, þokkalega ferskan eða saltan sel eða hnísu sem kemur í grásleppunetin á vorin. Hún má líka vera úldin en ekki þrá. Ég er að verka hákarlinn inni í húsi. Það er engin fluga og loftið í svalari kantinum í húsinu. Ég er fá núna alveg glimrandi hákarl úr upphengingu sem er ánægjulegt því verkunin hefur gengið herfilega hjá mér síðustu tvö ár. Ég var með einstaklega góðan hákarl fyrir tveimur árum og var hann á heimsmælikvarða. Ég virðist því eitthvað vera að rétta úr kútnum núna.“ 

Venja má krakka á hákarl

Jón segir hákarl jafnan í ágætri eftirspurn. Toppurinn er auðvitað í kringum þorrablótin en losna megi við hákarl allt árið ef gæðin eru í lagi. Hann kæri sig ekki um að selja vondan hákarl og fleygi honum þá frekar. 

„Ég hef gaman af því að smakka hákarl hér og þar. Oft smakka ég hákarl sem ég myndi sjálfur henda. En fjölmargir halda að varan eigi bara að vera svona. Þeim fækkar auðvitað sem vilja hákarl. En það er í rauninni  bara klaufaskapur því komi maður krökkum til þess að smakka hákarl komast þeir á bragðið ef þú ert með góða vöru. Ég fékk eitt sinn leikskólakrakka í heimsókn og þurfti reyndar að stoppa þá af svo þær ætu ekki á sig óþrif. Útlendingar hafa líka gaman af því að smakka hákarl. Eitt sinn þegar ég var að selja hákarl á Akureyri hitti ég tvær konur frá Rúmeníu sem fannst hákarlinn algjört lostæti. Þær keyptu af mér góðan bita og fóru með beint í rútuna.“