þriðjudagur, 26. maí 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kærkomnar veiðar í vaxandi atvinnuleysi

Guðjón Guðmundsson
14. maí 2020 kl. 14:28

Aldrei fyrr hefur verið meiri ásókn í strandveiðar. Mynd/HAG

Meiri ásókn í strandveiðar en nokkru sinni fyrr.

Fimmtungi fleiri strandveiðibátar hafa landað afla á fyrstu sex dögum strandveiðitímabilsins en á sama tíma í fyrra, alls 426 bátar eða 73 fleiri en í fyrra. Aflinn hefur aukist að sama skapi um fimmtung og er á fyrstu sex dögunum 814 tonn þótt engin veiði hafi verið í tvo daga vegna brælu.

Jónas Ragnarsson strandveiðimaður á Ragga ÍS frá Súðavík var að draga færin þegar slegið var á þráðinn. Hann segir veiðarnar hafa gengið vel en hann hefur ýmislegt út á fyrirkomulag veiðanna að setja. Lagt var af stað um fimmleytið um nóttina og um tíuleytið vantaði hann 50 kíló upp á að ná skammtinum.

Einn og hálfur tími

„Þetta var fínt á mánudaginn. Þá var ég einn og hálfan tíma að ná skammtinum og þetta er vænn og fallegur fiskur,“ segir Jónas.

Hann segir allt snúast nú um Covid 19 og gripið hafi verið til margvíslegra stuðningsaðgerða fyrir atvinnulífið en strandveiðisjómenn sitji á hakanum.

„Við getum bent á það að verðið í fyrra var nálægt 350 krónur fyrir kílóið af þorski en hefur nú lækkað niður í 170-200 krónur. Við sækjumst ekki eftir ríkisstyrk vegna þessa en við viljum að fyrirkomulag veiðanna verði frjálsara. Við viljum halda þessum 48 dögum sem við höfum til veiðanna en viljum að þeir dreifist yfir á 5-6 mánuði og menn ráði því sjálfir hvenær þeir nýti sér þá,“ segir Jónas.

Hann bætir því við að menn séu að róa núna þegar fiskverð er með allra lægsta móti en gætu með auknu frjálsræði róið þegar verð á fiskmörkuðum eru hærri. Sömuleiðis leiði núverandi kerfi til þess að menn sæki sjóinn þótt brugðið geti til beggja vona hvað varðar veður. Menn neyðist til að nýta alla daga til veiðanna. Þannig hafi þetta fyrirkomulag umtalsverð áhrif á öryggi sjómanna.

„Nú er bræluspá á morgun. Hefði ég úr fleiri dögum að spila myndi ég halda mig í landi. En ég verð að fara á sjó til að nýta þó þessa daga.“

Lagt til að lengja tímabilið

Sjávarútvegsráðherra hefur lagt fyrir þingflokka stjórnarflokkanna frumvarp þar sem lagðar eru til breytingar á strandveiðikerfinu. Breytingartillögurnar lúta að því að veiðar verði leyfðar á sunnudögum og að septembermánuði verði bætt við veiðitímabilið náist ekki leyfður heildarafli. Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, segir að ekki sé búið að mæla fyrir frumvarpinu.

„Mjög líklegt er að aflinn sem er áætlaður til strandveiða dugi ekki til að dekka allt tímabilið. Við eigum von á því að heildaraflinn verði leiðréttur úr 10.000 tonnum í 11.000 tonn. Síðan er nauðsynlegt að bæta í strandveiðipottinn þeim 1.400 tonnum af þorski sem ekki voru veidd á síðasta ári. Það eru full rök fyrir því að það verði gert því heimilt er að færa afla á milli ára í öðrum veiðikerfum,“ segir Örn.

Hann bætir því við að í skugga Covid 19 farsóttarinnar hafi atvinnuleysi stórlega aukist hér á landi. Margir sem hafi ekki haft sjómennsku að aðalstarfi en hafi stundað strandveiðar hafi nú misst sín föstu störf í landi.

„Það sem við að lágmarki getum gert er að útvega þessum mönnum atvinnu. Ég veit ekki á hvaða vegferð við erum sem þjóð ef það er ekki hægt að bæta við fleiri tonnum í strandveiðipottinn á tímum eins og þessum þegar alheimsfaraldur er að setja heilu efnahagskerfin á hliðina,“ segir Örn.