fimmtudagur, 24. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kaffiþorskum Lofotposten fjölgað 25 falt

Svavar Hávarðsson
5. nóvember 2017 kl. 10:00

Áhöfnin á Þorleifi EA með yfir 30 kílóa þorsk. (Mynd: Tryggvi Sveinsson)

Ýmsir mælikvarðar eru nýttir til að fylgjast með þróun þorsks við Noregsstrendur

Mælikvarði norska fréttablaðsins Lofotposten um þorskgegnd við strendur landsins stenst kannski ekki vísindalegar kröfur, en þær eru athyglisverðar engu að síður. Um rúmlega tíu ára skeið hefur blaðið veitt hverjum þeim sjómanni sem veiðir þorsk yfir 30 kílóum sérstök verðlaun, sem til dagsins í dag hafa ætíð verið þau sömu. Eitt kíló af kaffi.

Árið 2006 veitti Lofotposten 19 slík verðlaun – en í fyrra – tíu árum seinna pungaði eigandi blaðsins út fyrir 470 kílóum af kaffi. Þetta er haft til marks um stækkandi þorsk í stofninum við Noreg og í Barentshafi, eins og fjallað er um á fréttavefnum forskning.no.

Fjögur kíló
Þar er rætt við fiskifræðing norsku Hafrannsóknastofnunarinnar, Bjarte Bogstad, sem bendir á að aðeins fyrir nokkrum árum síðan var meðalþyngd Barentshafsþorsksins í kringum tvö kíló, en á allra síðustu árum hefur hún verið næstum því helmingi hærri – eða nálægt fjögur kíló.

Þyngdaraukninguna rekur Bogstad til hlýnunar sjávar, sem hefur verið stöðug allt frá aldamótum þar á bæ. Þorskurinn hefur hægt og bítandi sótt á norðar og austar í Barentshafi, en á sama tíma sem upp komust stórir árgangar var sóknin takmörkuð út frá veiðireglu sem norsk-rússneska fiskveiðinefndin lítur til. Hentugar aðstæður fyrir stóran þorskstofn voru til staðar þar sem fæðustöðvar þeirra stækkuðu að mun með hlýnandi sjó.

Úr milljón í 775.000 tonn
Stofninn náði hámarksstærð árið 2013, segir í frétt forskning.no. Var hann þá í svipaðri stærð og við lok seinni heimsstyrjaldarinnar árið 1945, en fer nú minnkandi. Það ár lagði Alþjóðahafrannsóknaráðið til að hámarksaflinn yrði 993.000 tonn. Árið eftir ákváðu norsk og rússnesk yfirvöld, samkvæmt ráðgjöf, kvóta upp á eina milljón tonna. Nú liggur fyrir samkomulag um að veiða 775.000 tonn af þorski úr Barentshafi á næsta ári.

Kvótinn skiptist á milli Norðmanna, Rússa og þriðju landa samkvæmt sömu reglum og gilt hafa undanfarin ár. Hlutur Norðmanna verður 350.159 tonn, og innifalið í því eru strandveiðar á 21.000 tonnum af þorski og rannsóknarveiðar á 7 þúsund tonnum.

Norðmenn og Rússar allt frá árinu 1976 sett sameiginlegan kvóta á veiðar í Barentshafi. Frá árinu 1993 hafa ríkin tvö haft nána samvinnu um rannsóknir og eftirlit ásamt því að skiptast á upplýsingum um veiðarnar.