þriðjudagur, 26. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kanadísk stórmarkaðskeðja setur þorsk á bannlista

9. október 2010 kl. 14:31

Sífellt fjölgar þeim verslunarkeðjum erlendis sem neita að selja fisk úr fiskistofnum sem ekki eru taldir nýttir á sjálfbæran hátt. Nú hefur kanadíska stórmarkaðskeðjan Metro Inc. bæst í þennan hóp.

Metro Inc hefur sett sex fisktegundir á bannlista af þessum sökum og er þorskur úr Norður-Atlantshafi þeirra á meðal. Hinar tegundirnar eru bláuggatúnfiskur, búri, vartari frá Chile, hokinhali frá Nýja-Sjálandi, skata og hákarl.

Frá þessu er skýrt á sjávarútvegsvefnum FishUpdate.com. Ekki virðist vera gerður greinarmunur á því hvaðan þorskurinn úr Norður-Atlantshafi kemur, en þess má geta að helstu umhverfisverndarsamtök hafa viðurkennt að íslenski þorskstofninn sé nýttur á sjálfbæran hátt og væntanlega þorskstofninn í Barentshafi líka, þótt sumir aðrir þorskstofnar geti varla fallið undir þá skilgreiningu.

Metro Inc er næststærsta matvælakeðja í kanadísku fylkjunum Quebec og Ontario. Fyrirtækið starfrækir yfir 600 matvörubúðir og 250 lyfjabúðir.