laugardagur, 15. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gæslan kannar notkun á ómönnuðu loftfari

Svavar Hávarðsson
16. nóvember 2017 kl. 16:30

Stofnunin er að þróa eftirlitskerfi sem byggir á ómönnuðum fygildum að hluta. Mynd/EMSA

Landhelgisgæslan nýtir bætt rekstarumhverfi til að auka úthald varðskipa við landið – stefnt á 360 daga á næsta ári.

Tilraunir með ómannað loftfar og aukin viðvera varðskipa á sjó við Ísland er meðal þess sem Landhelgisgæslan hefur til skoðunar fyrir næsta ár. Horft er til þess að gera varðskipið Ægi sjóklárt svo það geti hugsanlega tekið þátt í leiguverkefni á vegum Landamærastofnunar ESB, Frontex, í Miðjarðarhafi.

Þetta kom meðal annars fram í erindi Ásgríms L. Ásgrímssonar, framkvæmdastjóra aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar, á Sjávarútvegsráðstefnunni sem hófst í dag.

Ásgrímur fjallaði um miklar breytingar sem hafa átt sér stað, og munu halda áfram að eiga sér stað, í því umhverfi sem Landhelgisgæslan starfar í. Nefndi hann aukningu á sjúkraflugi og þörf fyrir þyrlur stofnunarinnar, eftirspurn eftir framlagi á alþjóðlegum vettvangi, alþjóðleg samvinna, varnartengd verkefni, tækninýjungar í eftirlitsstarfsemi og aukin umferð erlendra skipa við og umhverfis Ísland. Landhelgisgæslan hefur þurft og mun áfram vegna þessa þurfa að bregðast við nýjum áskorunum nú sem fyrr.

1,9 milljónir ferkílómetra
Ásgrímur gerði fyrst grein fyrir því að það svæði sem Landhelgisgæslan ber ábyrgð á er 1,9 milljónir ferkílómetrar, og kristallast umfang verkefna Gæslunnar vel í því.

Ásgrímur nefndi að dagar varðskipanna á sjó fækkaði afar mikið á vissu tímabili – fór úr því að vera um 600 dagar á sjó á skipunum niður í 270 daga. Á næsta ári er stefnt að því að dagar á sjó verði 360 dagar í heildina og munu Þór og Týr sinna þeim verkefnum. Ægir liggur í Sundahöfn en skipið hefur ekki verið afskráð.

„Við leitum að verkefnum fyrir skipið en til þess að koma því í gang kostar um 300 milljónir. Frontex hefur sýnt áhuga á því að taka skipið á leigu í tiltekinn tíma. Þetta er í skoðun og ekki víst að af þessu verði,“ sagði Ásgrímur og bætti við að um margt sé þróunin jákvæð í starfsumhverfi Gæslunnar á allra síðustu árum.

Gengi krónunnar vegur þar þungt – enda leiga á þyrlum og kaup á varahlutum í erlendri mynt en fjárheimildir Gæslunnar í íslenskum krónum. Eldsneytisverð hefur lækkað, eftir að hafa tekið mikið af rekstrarfé stofnunarinnar þegar það var sem hæst fyrir nokkrum árum. Betra rekstarumhverfi gefur kost á auknu úthaldi og siglingum skipanna.

„Við ætlum á næsta ári að taka upp breytt úthald varðskipanna. Gera þau út til skiptis – Þór og Tý – og vera með rúmlega tvær áhafnir á hvoru skipi svo annað geti alltaf verið á sjó,“ sagði Ásgrímur og bætti við að stefnt sé að því að flugvél Gæslunnar – TF-SIF – verði færri daga í verkefnum fyrir Frontex í Miðjarðarhafi – en þó það sé gefandi starf þá sé óskastaðan að hún sé við störf við Ísland lengur en nú er.

Aukinn hlutur flugdeildar í rekstri Gæslunnar er öllum kunnur; nú eru fimm áhafnir á bókum stofnunarinnar en það þarf 6-7 slíkar til að tryggja mönnun allan sólarhringinn allt árið.

Vöktun utan úr geimnum
Á næstu mánuðum fær Gæslan aðgang að AIS ferilvöktunargögnum frá Siglingaöryggisstofnun Evrópu (EMSA) og „verða þá vonandi skugga- og jaðarsvæði úr sögunni“ í eftirliti, sagði Ásgrímur. Um aukinn aðgang en ekki nýjan er að ræða – en vonir standa til að þetta kalli á aukið og markvissara eftirlit.

Frá sömu stofnun hefur Gæslan fengið gervihnattamyndir þar sem hægt er að fylgjast með mengun, bæði frá skipum og við land – en einnig að fylgjast með hafís og fleiru. Ekki hafa komið upp alvarleg mengunartilvik frá skipum en með myndunum er hægt að sjá t.d. grútarmengun frá fiskvinnslustöðvum í landi. Með betri myndum í framtíðinni eru einstök skip greinanleg – svo tæknin fer sífellt batnandi í þessu tilliti.

Ómannað loftfar
„Það stendur til að koma með ómannað loftfar á vegum Siglingaöryggisstofnunar Evrópu næsta sumar, en eftir er að vinna það mál áfram með ýmsum aðilum – varðandi leyfismál og fleira. Við erum spenntir að sjá hvernig þetta kemur út. Margir aðilar, framleiðendur, söluaðilar og athafnafólk, hefur komið og kynnt okkur ómönnuð loftför en enginn viljað koma hingað og sýna hvernig þau virka hér á Íslandi. Það er eitt þessi drónar sem eru að taka myndir stutt frá notenda eða fara á haf út í eftirlit, þar sem hægt er að lenda í ísingu og fleiru,“ sagði Ásgrímur en bætti við „að við berum von í brjósti hvað þetta varðar.“

EMSA stefnir á að lána/prófa ómannað loftfar (UAV) í tvo mánuði næsta sumar. Flugþol loftfarsins er tíu tímar, það kemst á 140 kílómetra hraða á klukkustund og drægið með gervihnattatengingu er 700 kílómetrar.

Nýjar þyrlur
Ákveðið hefur verið að kaupa þrjár nýjar björgunarþyrlur fyrir Gæsluna og undirbúningsvinna hófst í sumar. Gerð verður þarfagreining sem lýkur nú um áramótin og við tekur undirbúningur á útboðsgögnum með ríkiskaupum sem lokið verður fyrir árslok 2018. Útboðið stendur yfir árið 2019 en þyrlurnar afhentar árin 2021 og 2022.

Nánar verður fjallað um öryggismál sjómanna og annarra sem starfa í sjávarútvegi í Fiskifréttum á næstunni.