þriðjudagur, 28. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Karfaaflinn að glæðast og batnandi ufsaveiði

12. febrúar 2016 kl. 16:00

Ásbjörn RE (Mynd af vef HB Granda)

Það vakti athygli nú um miðja vikuna að vart varð við svartan karfa í fiskmóttöku HB Granda

,,Nú þegar daginn er farið að lengja hefur karfaveiðin aukist og það er farið að slæðast meira af ufsa með. Heilt yfir eru aflabrögðin vel viðunandi,“ segir Friðleifur Einarsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Ásbirni RE í viðtali á vef HB Granda.

Ásbjörn RE er nú að veiðum á Fjöllunum út af Reykjanesi eða á heimamiðum ísfisktogara HB Granda. Að sögn Leifs býst hann við því að vera áfram á svipuðum slóðum en von er á togaranum til heimahafnar í Reykjavík nk. mánudagsmorgun.

,,Það hafa nokkur skip verið að veiðum úti á Melsekk og Belgableyðu að undanförnu en þessi veiðisvæði eru vestan við Eldeyjarbankann. Ætli það séu ekki ein fimm skip á Melsekknum núna og mér skilst að aflabrögðin séu alveg þokkaleg,“ segir Leifur en meðal þessara skipa er annar togari frá HB Granda, Helga María AK.

Það vakti athygli nú um miðja vikuna að vart varð við svartan karfa í fiskmóttöku HB Granda í Norðurgarði en þessi fiskur var í karfaafla Ottós N.Þorlákssonar RE. Að sögn Leifs verður stundum vart við þetta litarafbrigði.

,,Ég hef oft séð svartan karfa og stundum fáum við slíka fiska oftar en einu sinni á ári. Þeir eru því ekki algengir en langt frá því að vera óþekktir,“ segir Friðleifur Einarsson.

Blíðuveður er nú á miðunum fyrir sunnan og vestan landið. Nánast ládauður sjór líkt og í bestu aðstæðum að sumarlagi.