föstudagur, 14. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kastað á torfurnar á stofugólfinu

Guðjón Guðmundsson
12. júlí 2020 kl. 09:00

Pétur Hafstein og Páll Jóhann með skipið góða sem faðir þeirra setti saman og notaði í útgerðarleik þeirra feðga. Leikfangið líkist nýju skipi útgerðarinnar og er haft á orði að gamli maðrinn hafi gert líkan að nýsmíðinni strax árið 1965. Mynd/Jón Steinar

Strax í æsku má segja að bernskuleikir Vísisbræðranna Péturs Hafsteins og Pálls Jóhanns hafi undirbúið þá fyrir það sem seinna varð.

Það var ljóst strax í æsku hvert stefndi hjá þeim Vísisbræðrum Páli Jóhanni og Pétri Hafsteini. Faðir þeirra, Páll H. Pálsson útgerðarmaður, stýrði leiknum á nýja heimilinu í Grindavík þar sem fjölskyldan hafði flust í nóvember 1965 frá Keflavík. Páll hafði þá keypt ásamt Kristmundi Finnbogasyni og Ásgeiri Lúðvíkssyni fyrirtækið Sævík sem gerði út vélbátinn Vísi KE 70 og rak samnefnt fiskverkunarhús í Grindavík.

Upp úr þessu var Vísir hf. stofnaður í desember 1965 sem nú er eitt af stærstu útgerðar-  og fiskvinnslufyrirtækjum landsins. Saga Vísis nær þó lengra aftur í tímann. Páll Jónsson, faðir Páls Hreins Pálssonar og afi Páls Jóhanns, útgerðarstjóra smábáta Vísis og fyrrum alþingismanns, og Péturs Hafsteins, framkvæmdastjóra Vísis, átti bátana Fjölni og Hilmi. Hann fórst með síðarnefnda bátnum í Faxaflóa árið 1943. Eiginkona hans, Jóhanna Daðey Gísladóttir, gerði Fjölni áfram út til síldveiða og fiskflutninga í stríðinu allt þar til hann sökk eftir árekstur við enskt póstskip í lok stríðsins í mars 1945.

Fæddur á dánardegi afa síns

„Ég fæðist á dánardegi afa míns sem var raunar talinn af 26. nóvember en líkur benda til þess að hann hafi dáið degi fyrr, 25. nóvember, sem er afmælisdagur minn,“ segir Páll Jóhann. „Ég ber nafn afa og ömmu minnar, Jóhönnu Daðeyjar. Báturinn Hilmir var nýsmíði frá Akureyri og fór í raun aldrei á veiðar. Hann var notaður til vikurflutninga frá Arnarstapa til Reykjavíkur og fórst í einni af þessum ferðum og afi með honum ásamt fleirum.“

Páll H. Pálsson útskrifaðist úr Stýrimannaskólanum 1953 og sama ár keypti hann ásamt fleirum 100 tonna bát frá Stykkishólmi. Hann fékk nafnið Fjölnir ÍS og var gerður út á línuveiðar frá Þingeyri. 1963 keypti Páll línu- og humarbátinn Farsæl og gerði hann út frá Keflavík. Báturinn sökk ári síðar. Páll keypti, sem fyrr greinir, Sævík í Grindavík 1964 og þangað flutti fjölskyldan 1965.

Kastað á pappírsmiðana

Eftir flutninginn til Grindavíkur bjó fjölskyldan reyndar fyrst á verbúðinni með Íslendingum, Færeyingum og Grænlendingum. Systkinin voru farin að vinna í fiskvinnslunni um leið og þau gátu vettlingi valdið. Eftir fyrsta veturinn keyptu þau hjón fokhelt hús og þangað var flutt.

Leikurinn, sem upphaflega er minnst á, fólst í því að fjölskyldufaðirinn dreifði litlum pappírsmiðum á gólfin út um allt hús. Systkinin eru alls sex og synirnir tveir, Páll Jóhann og Pétur. Þeir drógu skip sem þeir höfðu smíðað í smíðatímum í skólanum og köstuðu nót á miðana. Á miðana hafði útgerðarmaðurinn skrifað ýmist „fullfermi“, „15 tonn“, „rifið“, „búmm“ sem þýddi enginn afli og þar fram eftir götunum. Menn þurftu að fara beinustu leið í land ef þeir fengu „rifið“. Skráð var niður hvað fékkst í hverjum róðri. Það sem skrifað var á miðana sneri niður svo það var tilviljunum háð hvað fékkst í hverju kasti. Það mátti fara á sjó og draga þrjá miða og talsverð keppni var milli bræðranna og fjölskylduföðurins. Páll Jóhann segir að í minningunni hafi hann alltaf fiskað meira en Pétur sem á móti heldur því fram að því sé þveröfugt farið. Sjálfur var útgerðarmaðurinn með bát sem hann hafði sagað út í snarhasti og skellt á brú. Þessi leikfangabátur hans þykir á einhvern undarlegan hátt minna vel á grunnformin í nýjum Páli Jónssyni GK, fyrstu nýsmíði Vísis hf. sem kom til landsins í janúar á þessu ári.

Líkan frá 1965 að nýsmíðinni

Nýr Páll Jónsson GK, sem heitir eftir afa þeirra Vísissystkina, var smíðaður í Gdansk í Póllandi. Þegar forsvarsmenn fyrirtækisins tóku við skipinu þar í landi var efnt til hófs með starfsmönnum skipasmíðastöðvarinnar. Við það tækifæri minntist Páll Jóhann á æskuleikina á heimili sínu í Grindavík og hlaut góðar undirtekir viðstaddra. Margir höfðu á orði, að leikfangabátur Páls H. Pálssonar, sem sonur hann Páll Jóhann hafði haft með sér í hófið, væri skemmtilega líkur nýsmíðinni. Haft var á orði að gamli maðurinn hefði þarna gert líkan að nýsmíðinni strax árið 1965.