mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kaupir 80% hlut í 3X Technoloy

29. janúar 2014 kl. 14:33

Höfuðstöðvar 3X Technology við Sindragötu á Ísafirði.

Skaginn, Þorgeir & Ellert og 3X samnýta krafta sína.

Samkomulag hefur verið gert um kaup IÁ hönnunar ehf. á 80% hlut í 3X Technology á Ísafirði. IÁ hönnun ehf. er félag í eigu Ingólfs Árnasonar, framkvæmdastjóra Skagans hf. og Þorgeirs & Ellerts hf. á Akranesi. Kaupin eru háð samþykki Samkeppnisstofnunar. 

Fyrirtækin hafa sérhæft sig í vinnslutengdum kælilausnum og átt í margháttuðu samstarfi á undanförnum árum.  Sameiginlega sérhæfa fyrirtækin sig ekki bara í vinnslukerfum fyrir rækju, bolfisk og uppsjávartegundir heldur einnig í öðrum matvælaiðnaði. Vinnslulausnir frá fyrirtækjunum hafa verið notaðar víða um heim með framúrskarandi árangri.

Með aukinni samvinnu, sem fyrirhuguð er í kjölfar samkomulagsins, gefst möguleiki á að samþætta markaðs-, vinnslu- innkaupa- og þróunarvinnu fyrirtækjanna. Mikil sérþekking er fyrir hendi jafnt á Akranesi sem og á Ísafirði. Hún verður áfram nýtt á hvorum stað um sig til markaðssóknar, m.a. til að jafna sölusveiflur og til að efla heildarrekstur fyrirtækjanna enn frekar. Fjárhagsleg staða fyrirtækjanna í dag er mjög sterk, segir í fréttatilkynningu.