föstudagur, 7. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Keyptu einn af eikarbátum Varar

Guðjón Guðmundsson
19. ágúst 2019 kl. 10:00

Halldór, Sævar, og Egill Áskelssynir. Mynd/Þorgeir Baldursson

Áskelssynir á Akureyri heiðra minningu föður síns.

Stór hluti af æskuupplifun bræðranna Egils, Halldórs og Sævars Áskelssona var sjósetning eikarbátanna sem faðir þeirra, Áskell Egilsson, einn stofnenda og eigenda bátasmiðjunnar Varar á Akureyri  smíðaði ásamt félögum sínum á áttunda áratug síðustu aldar. Lengi hafði blundað í þeim bræðrum að eignast einn af þessum bátum til að heiðra minningu föður síns.

Það varð að veruleika fyrir nokkrum árum og gera þeir bátinn, sem heitir Áskell Egilsson eftir föður þeirra, út til hvalaskoðunarferða.

„Við eldri bræðurnir fórum í flestar prufusiglingarnar hérna í Eyjafirðinum. Stærri eikarbátarnir eru smíðaðir hjá Vör á Óseyri á árunum 1972 til 1977 og  þeir tveir minni árin 1983 og 1987. Alls voru þeir ellefu, þar af níu í kringum 30 brúttólestir að stærð. Fyrsta launaða vinnan okkar eldri bræðranna var að festa tjöruhampinn á naglana sem fóru í eikarborðin. Ég hef varla verið nema 7 ára þegar ég byrjaði á þessu,“ segir Halldór sem seinna átti glæsilegan feril með Þór í knattspyrnu og var fastamaður í íslenska landsliðinu frá  1984-1989 undir stjórn Tony Knapp og Sigfried Held.

Allir enn á floti

Stofnendur og eigendur Varar voru sex skipasmiðir sem starfað höfðu í Slippstöðinni hf. en hættu þar og stofnuðu eigið fyrirtæki. Þeir voru Kári Baldursson, Jón Steinbergsson, Gauti Valdimarsson, Áskell Egilsson og náfrændur hans, Áskell Bjarnason og Hallgrímur Skaptason sem var framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Allir stærri bátarnir eru enn á floti og flestir nýttir við ferðaþjónustu að einum undanskildum sem er á veiðum.  Annar minni bátanna Þingey er enn á veiðum en ekki vita bræðurnir um afdrif þess minnsta og yngsta sem upprunalega hét Sævar NK.

„Við höfum alltaf fylgst með þessum bátum. Við ræddum það líka okkar á milli þegar við hittumst að nú yrðum við að eignast einn af þessum bátum. Fyrir tilviljun komumst við síðan að því að þessi tiltekni bátur var á Húsavík þar sem til stóð að farga honum. Báturinn hét upphaflega Vöttur SU-3, smíðaður 1975, en var síðast í eigu Ólafs Ármanns Sigurðssonar á Húsavík og notaður við veiðar þar til útgerðarmaðurinn fékk sér nýrri bát. Hvalaskoðunarfyrirtækin þar sóttust eftir bátnum en Ólafur vildi ekki selja hann. En við náðum að stíga inn í ferlið á síðustu stundu. Við keyptum bátinn af honum og höfum ekki átt okkur líf síðan,“ kímir Halldór.

Í hönd fór mikil vinna við uppgerð bátsins. Mörg lög af málningu voru skröpuð af dekkinu þannig að nú sést í viðinn, nýjar raflagnir voru lagðar, brúin var tekin í gegn og sett í bátinn ný siglingatæki, nýr vatnstankur, klósett og öldustokkur og „allt skrapað inn að beini“ eins og Halldór orðar það.

Í fullri vinnu annars staðar

Nú gerir ferðaþjónustufyrirtæki þeirra bræðra, Keli Seatours, út frá Eyjafirði og Grenivík og þessa dagana reyndar frá Ólafsfirði. Einn þeirra bræðra er ávallt með í hverri ferð og lýsir sögu bátsins og á samskipti við ferðamennina. Þeir bræður hafa ekki skipstjórnarréttindi og eru reyndar í fullri vinnu annars staðar. Um stjórnvölinn heldur Björgvin Sigurjónsson (Kúti), sá hinn sami og hannaði Björgvinsbeltið sem er að finna í flestum fleyum.

„Veltan núna er orðin meiri en allt síðasta sumar. Við kvörtum því ekki,“ segir Halldór. Útgerð Áskels Egilssonar snýst ekki síður um varðveislu menningarverðmæta í formi eikarbátanna sem bátasmiðjan Vör smíðaði á Akureyri á áttunda áratugnum. Halldór segir að enga styrki að hafa til varðveislu af þessu tagi og úrtöluraddirnar hafi verið margar.

„Til þess að ná árangri til dæmis í íþróttum þarf að mæta á æfingar. Viðhorf okkar bræðra var dálítið með þeim hætti. Við ákváðum að þagga niður í þessum röddum. Okkar fyrirmynd var annar bátur sem pabbi og félagar smíðuðu og heitir Níels Jónsson og er gerður út frá Hauganesi. Þar er elsta hvalaskoðunarfyrirtæki landsins og við fengum góð ráð frá forsvarsmönnum þess fyrirtækis.“

Aðrir eikarbátar Varar sem eru í ferðaþjónustunni eru Steini Vigg á Siglufirði, Sylvía á Húsavík, Láki á Grundarfirði.  Ýmir er líklega enn gerður er út til einhverra veiða frá Þorlákshöfn og verið er að gera upp Birtu/Seaflower fyrir sunnan. Fjórir af 30 tonna eikarbátunum fóru nýir á sínum tíma til Grenivíkur.

Fleiri myndir og upplýsingar á síðu Þorgeirs Baldurssonar, ljósmyndara