mánudagur, 30. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kína ört stækkandi markaður

22. júlí 2019 kl. 17:00

Jens Stoltenberg, þáverandi forsætisráðherra Noregs, og Lisbeth Berg-Hansen sjávarútvegsráðherra létu ekki sitt eftir liggja við markaðssókn á norskum laxi í sushi rétti í Japan. Mynd/EPA

Norðmenn fluttu út sjávarafurðir fyrir 755 milljarða íslenskra króna

Norðmenn hafa selt sjávarafurðir fyrir 51,2 milljarð NOK, 755 milljarða ÍSK, fyrstu sex mánuði ársins sem er metsala á hálfu ári. Þetta er 4,4 milljörðum meiri sala en á fyrri helmingi 2018.

Kröftugur vöxtur hefur verið í útflutningi á lax til Kína og útflutningur á makríl hefur aukist. Gengismál hafa einnig haft áhrif á auknar tekjur. Gengi norsku krónunnar hefur verið veikt gagnvart evru og dollar sem hefur skilað sér í hærri verðum í útflutningi á norskum sjávarafurðum.

Það sem af er árinu hefur verið vöxtur jafnt í útflutningsverðmætum og útflutningsmagni á ferskum laxi til Kína. Samtals nemur þessi útflutningur 12.130 tonnum á fyrstu sex mánuðum ársins. Það er meira en flutt var út til Kína af ferskum laxi allt árið 2018. Þá nam útflutningurinn 12.000 tonnum.

506.000 tonn af laxi

Umtalsvert meira hefur verið flutt út af laxi til Kína sem helgast aðallega að betri markaðsaðgangi í Kína og skilvirkari viðskiptum. Alls fluttu Norðmenn út 506.000 tonn af laxi á fyrri helmingi ársins og námu útflutningsverðmætin 34,6 milljörðum NOK, 510 milljörðum ÍSK. Þetta er aukning um 5% í magni og útflutningsverðmætin jukust um 6%, eða 2,1 milljarð NOK, frá sama tíma í fyrra. Stærstu útflutningsmarkaðirnir eru Pólland, Frakkland og Danmörk.

Þá fluttu Norðmenn út 40.200 tonn af ferskum þorski á fyrri helmingi árs fyrir 1,7 milljarð NOK, 25 milljarða ÍSK. Þetta er 21% minni þorskútflutningur en á sama tíma í fyrra í magni og verðmætin drógust saman um 7%. Stærstu útflutningsmarkaðirnir eru Danmörk, Pólland og Holland.

Á fyrri helmingi ársins fluttu Norðmenn út 41.700 tonn af saltfiski fyrir 2 milljarða NOK, 1.100 tonn af þurrkuðum þorski, 147.000 tonn af síld fyrir 1,3 milljarða NOK, 81.000 tonn af makríl fyrir fyrir 1,4 milljarð NOK, 24.700 tonn af urriða fyrir 1,7 milljarð NOK, 7.500 tonn af rækju fyrir 552 milljónir NOK sem er 65% aukning, og 844 tonn af kóngakrabba fyrir 264 milljónir NOK.