miðvikudagur, 23. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kínverjar halda að sér höndum

24. ágúst 2020 kl. 12:40

Útflutningsverðmæti makríls Norðmanna snarfalla.

Útflutningsverðmæti makríls frá Noregi til Kína dróst saman um 59% í júlí í samanburði við sama mánuð í fyrra. Ástæða þessa er meðal annars ótti Kínverja við að kórónuveira berist með innfluttum sjávarafurðum.

Útflutningsverðmæti makríls til Kína í júlí eru hróplegri mótsögn við útflutningsverðmætin það sem af er öllu árinu því þau hafa vaxið í heild um 8%.

Samdrátturinn er þó í takt við áhyggjur sem Kjetil Sperre, sem annast útflutning á makríl fyrir Sperre bræður á Ellingsøy, viðraði í norskum fjölmiðlum. Hann sagði að kínverskir innflytjendur héldu að sér höndum hvað varðar innflutning á fisk frá Noregi. Ástæðan er sú að þeir óttast að kórónuveirusmit fylgi innflutningi á fiski frá Noregi, þar á meðal makrílinnflutningi.

Victoria Braathen, talsmaður norska sjávarafurðaráðsins, segir mjög sérstaka tíma vera á Kínamarkaði sem hafi áhrif á útflutning á norskum sjávarafurðum.

Óháð uppruna

„Samdráttinn má skoða í samhengi við eftirspurn á kínverskum markaði en líka markaði Kínverja fyrir makríl. Stærsti hluti þess makríls sem seldur er til Kína er unninn þar áfram og fluttur út til Japans sem er stærsti neytendamarkaðurinn fyrir makríl. Eftirspurnin er jafnan minnst í júlí og ágúst og venjulega þeir mánuðir sem minnst er flutt út af makríl til Kína,“ segir Braathen.

Hún segir þó ljóst að tengsl milli innflutnings á sjávarafurðum til Kína og útbreiðslu kórónuveirunnar stuðli einnig að þessum samdrætti. Engu að síður séu bundnar vonir við aukinn útflutning til Kína í haust.

„Þessi staða er ekki einstök fyrir norskar sjávarafurðir heldur hefur eftirspurn eftir innfluttum sjávarafurðum óháð uppruna dregist saman,“ segir Braathen.

Það sem af er ári hafa Norðmenn flutt út 75.400 tonn af sjávarafurðum til Kína að verðmæti 2,4 milljarðar NOK, 36 milljarðar ÍSK. Það er 12% minna magn en á sama tíma í fyrra og 13% minna í útflutningsverðmætum. Þá hafa verið flutt út um 16.600 tonn af makríl til Kína á þessu ári að verðmæti 277.900 milljónir NOK, 4,2 milljarðar NOK, sem er 4% meira í magni og 8% meira í útflutningsverðmætum en á sama tíma í fyrra.