laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kínverjar vilja horfa í augun á fiskinum

30. desember 2013 kl. 15:00

Á fiskmarkaði í Kína.

Fiskflök eru sjaldgæf sjón á kínverskum fiskmörkuðum.

Kínverskir neytendur vilja helst að fiskurinn sem þeir kaupa á fiskmörkuðum sé lifandi eða að minnsta kosti heill ef hann er dauður. Fiskflök sjást sjaldan á kínverskum fiskmörkuðum.

Kínverjar skera sig að þessu leyti úr í samanburði við aðrar asískar þjóðir sem ekki deila með þeim þessari tortryggni í garð unninna fiskafurða. Ástæðan er sögð vera sú að algengt er að upp komi hneykslismál í Kína tengd unnum afurðum. 

 Þetta kemur fram í viðtali Fiskeribladet/Fiskaren við norskan námsmann við Sjávarútvegsháskólann í Tromsö, Eirik Vatn Fredagsvik, sem kannað hefur möguleikann á aukinni sölu á laxaflökum til Kína. Norskur lax nýtur vinsælda á fiskmörkuðum í Kína en kaupendur vilja geta horft í augun á fiskinum áður en hann er flakaður fyrir þá. 

Annað vandamál sem dregið hefur stórlega úr sölu Norðmanna á laxi til Kína er viðskiptahindranir sem kínversk stjórnvöld hafa beitt í mótmælaskyni við því að kínverska andófsmanninum Liu Xiaobo voru veitt friðarverðlaun Nóbels árið 2010. Það mál er enn óleyst. Fredagsvik telur að engar sættir geti orðið fyrr en norsk stjórnvöld segist harma framtakið, þó ekki væri nema í kyrrþey.