þriðjudagur, 10. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kínversk stjórnvöld að gefa grænt ljós

Svavar Hávarðsson
8. maí 2018 kl. 15:00

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, ásamt Wang Chao, varautanríkisráðherra Kína.

Nú eru góðar horfur á viðurkenningu kínverskra stjórnvalda á íslenskum vottunum á okkar helstu útflutningsvörum til Kína, en meirihluti útflutningsins eru sjávarafurðir. Helstu viðskipti við Rússa tengjast skipum og skipasmíði.

Þetta kemur fram í skýrslu utanríkisráðherra til Alþingis sem var lögð fram nýlega. Málið hverfist um fríverslunarsamning Íslands og Kína sem skapar grundvöll fyrir viðskipti landanna. En þar sem meiri hluti útflutnings frá Íslandi eru sjávarafurðir, en heilbrigðiseftirlit er ekki samræmt, hefur þurft að fara í umfangsmikla vinnu við að fá viðurkenningu kínverskra stjórnvalda á íslenskum vottunum. Segir í skýrslu ráðherra að sendiráð Íslands í Kína hafi haft milligöngu um samskipti stofnana og aðstoðað við skipulagningu fjögurra sendinefnda frá Kína til Íslands. Í undirbúningi er kynning á íslenskum matvælum þar í landi í samstarfi við hótelkeðjur og innflytjendur þegar viðurkenningin er í höfn.

Sendiráðið er staðsett í borginni Beijing og var stofnað árið 1995. Sendiráðið er með fyrirsvar gagnvart Kína en einnig níu önnur ríki - Ástralíu, Kambódíu, Laos, Mongólíu, Norður-Kóreu, Nýja-Sjáland, Suður-Kóreu, Tæland og Víetnam.

Rússland lokar og opnar

Í skýrslu ráðherra kennir margra grasa um málefni er tengjast sjávarútvegi, alþjóðasamningum, hafréttarmálum, vísindasamstarfi og öðrum hagsmunamálum Íslendinga á erlendri grundu.

Segir frá því að mikill samdráttur hefur orðið í útflutningi til Rússlands í kjölfar gagnþvingunaraðgerða Rússa sem tóku gildi hinn 13. ágúst 2015. Uppistaða útflutnings til Rússlands var uppsjávarfiskur (makríll, síld og loðna). Mikil aukning hafði verið á vöruútflutningi til Rússlands áður en Rússar gripu til aðgerða. Hann jókst úr sex milljörðum króna árið 2009 í 29.2 milljarða árið 2014. Árið 2016 fór hann niður í 1.2 milljarða króna en jókst í sjö milljarða í fyrra.

Áhrif þessarar deilu eru þekkt en athyglisvert að nú er uppistaðan í viðskiptum þjóðanna með notuð skip og tæknilausnir fyrir sjávarútveg. Árið 2016 voru flutt út notuð fiskiskip fyrir 5.1 milljarð króna. Rússnesk stjórnvöld leggja nú áherslu á aukna sjálfbærni í innlendri matvælaframleiðslu sem hefur aftur á móti skapað markaðstækifæri fyrir íslenska framleiðendur á búnaði fyrir fiskvinnslu og fiskveiðar.

Stórir samningar

Fiskifréttir hafa fjallað ítarlega um þessa þróun. Nú síðast undirritun samninga á milli íslensku tæknifyrirtækjanna Skaginn 3X ásamt Frost og Rafeyri hafa undir hatti Knarr Maritime. Samningurinn er við útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Gidrostroy um uppsetningu fullkominnar uppsjávarverksmiðju á Kuril-eyjum á austurströnd Rússlands.

Seint á síðasta ári undirrituðu fyrirtækin einnig samning við færeyska útgerðarfélagið Varðin Pelagic um nýja uppsjávarvinnslu í Suðurey í Færeyjum. Virði samningsins er um fimm milljarðar íslenskra króna. Afkastagetu þeirrar vinnslu er allt að 1.300 tonn af pakkaðri vöru á sólarhring.

Flækjur í Færeyjum

Færeyjar voru 22. mikilvægasta viðskiptaland Íslands árið 2016. Ísland hefur meiri viðskipti við Færeyjar en t.d. Rússland, Indland, Brasilíu, Mexíkó, Suður-Kóreu, Finnland eða Austurríki. Í skýrslu ráðherra segir að meðalvelta vöru- og þjónustuviðskipta áranna 2013 til 2016 var 14,6 milljarðar íslenskra króna á ári.

Ýmsar blikur eru á lofti varðandi Hoyvíkur-samninginn í kjölfar þess að Færeyingar samþykktu lög á síðasta ári sem banna erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi. Í Hoyvíkur-samningnum er kveðið á um tollfrelsi í viðskiptum milli Íslands og Færeyja með hvers kyns vörur sem upprunnar eru í löndunum.

Í lok árs 2017 var ný fiskveiðilöggjöf samþykkt í Færeyjum en samkvæmt henni verður aðild útlendinga að útgerðarfélögum óheimil og er erlendum fjárfestum gefinn sjö ára frestur til losa um eignir sínar.

Eins og Fiskifréttir sögðu frá í febrúar snertir krafa nýju laganna um færeyskt eignarhald í sjávarútvegi einkum tvö stór útgerðarfyrirtæki í Færeyjum. Annað þeirra er Framherji sem er í eigu íslenska stórfyrirtækisins Samherja sem hefur tengst færeyskum sjávarútvegi síðan 1994, en það ár stofnaði Samherji Framherja í samstarfi við Færeyinga. Framherji gerir út þrjá togara í Færeyjum. Þessar kröfur laganna um eignarhald eiga þó eingöngu við um útgerð, ekki fiskvinnslu, en Samherji á einnig hlut í vinnslufyrirtækinu Bergfrost í Fuglafirði.

Í skýrslu ráðherra segir.  „Þar sem lögin fara gegn ákvæðum Hoyvíkur-samningsins um fjárfestingar þarf að vinna að úrlausn málsins en Færeyingar hafa gefið til kynna að þeir muni óska eftir endurskoðun samningsins með það að markmiði að fella á brott heimildir fyrir íslenska aðila til að fjárfesta í færeyskum sjávarútvegi. Nú mega íslenskir aðilar eiga þriðjungshlut í færeyskum útgerðarfélögum, og Færeyingar mega eiga fjórðungshlut í íslenskum útgerðarfélögum.“

Engir samningar í gildi

Tæpur þriðjungur verðmæta íslensks sjávarútvegs á rætur að rekja til fiskistofna sem semja þarf um nýtingu á við aðrar þjóðir. Nú er svo komið að engir samningar eru í gildi milli þjóða á norðaustanverðu Atlantshafi um heildarstjórn veiða úr mikilvægustu deilistofnunum, þ.e. makríl, norsk-íslenskri síld og kolmunna. Viðræður strandríkja hafa um árabil ekki skilað samkomulagi milli þjóðanna um stjórn veiðanna.

„Afleiðingin er sú að ríkin hafa sett sér einhliða aflaheimildir sem í heild nema tugum prósenta umfram vísindaráðgjöf. Ljóst er að þessi ofveiði getur stórlega skert afrakstur þessara fiskistofna, ef fram heldur sem horfir,“ segir í skýrslunni.