mánudagur, 1. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kjarasamningar sjómanna

11. janúar 2020 kl. 13:00

Valmundur Valmundsson

Viðræðuáætlun milli Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi tilbúin.

Síðasti samningur komst á milli sjómanna og SFS 18. febrúar 2017. Þá höfðu samningar verið lausir frá 2011. Það eru margar skýringar á þeirri stöðu. Hrunið setti nær alla kjarasamningsgerð í uppnám. Einnig samninga sjómanna sem voru framlengdir 2009 til ársins 2011. Eftir það tók gengið að falla og laun sjómanna hækkuðu mikið. Sjómenn voru ekki ginkeyptir fyrir því að fara í átök á þeim tíma. En svo kom að skuldadögunum. Laun sjómanna lækkuðu skarpt þegar krónan styrktist og þykkna tók í mannskapnum. Í júní 2016 undirrituðu Sjómannasambandið og Farmanna- og fiskimannasambandið undir samning við SFS. En hvað um það, samningurinn var felldur af sjómönnum enda unnið að því öllum árum af sumum þeim sem þó höfðu undirritað hann. Farmanna- og fiskimannasambandið samþykkti samninginn.

Glatað tækifæri

Eftir stranga lotu var skrifað undir samning í nóvember 2016 eftir fjögurra daga verkfall. Grindvíkingar og Sjómannafélag Íslands skrifuðu undir daginn eftir. VM aflýsti verkfalli. Hvers vegna var ekki útskýrt. Róið var að því öllum árum að tala samninginn niður. Við það glataðist tækifæri að ná hluta sjómannaafsláttarins til baka sem hafði verið ein aðalkrafa sjómanna fram að þessu. Samningarnir voru felldir og verkfall undirmanna skall á 14. desember. Svo var samið 18. febrúar 2017 og samningurinn samþykktur í snarpri atkvæðagreiðslu eftir 10 vikna verkfall sem skilaði sjómönnum eftirfarandi:

Hækkun kaupliða eins og á almenna markaðnum. Kauptrygging undirmanna er nú kr. 326,780. Við teljum okkur eiga inni hækkunina sem kom á almenna markaðinn í vor, SFS neitar. Það fer nú fyrir félagsdóm.

Skiptaverð þegar afli fer til eigin vinnslu hækkar um 0,5% og fer í 70,5%

Olíuverðsviðmiðunar töflur uppfærðar miðað við erlenda verðbólgu.

Samið um stærri frystitogara sem eru með fleiri en 27 í áhöfn. Sama launahlutfall og hjá þeim minni.

Nýsmíðaálag fellur brott árið 2031. Á síðasta ári voru t.d. einungis þrír nýir togarar af níu sem gátu nýtt sér álagið að fullu. Tveir að hluta og fjórir alls ekki.

Sjómenn fá vinnuföt sér að kostnaðarlausu.

Frítt fæði. Hlunnindaskattur greiddur.

Orlof. Greinin um orlof styrkt til mikilla muna. Þrjú ár að vinna inn sama rétt ef skipt er um útgerð. Var áður 10 og 15 ár.

Línuuppbót kr 50.000 að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Fiskverð. Fiskur til eigin vinnslu. Notuð þriggja mánaða meðaltöl af fiskmarkaði og miðað við 80% af markaðsverði. Var áður 12 mánaða meðaltöl. Einnig er gert ráð fyrir vörnum vegna afurðaverðs, til hækkunar eða lækkunar. Síðan í maí 2017 hefur verð á slægðum þorski hækkað um 50% í beinum viðskiptum. Ef gamla módelið væri notað hefði þessi hækkun ekki verið komin fram nema að hluta.

Eingreiðsla kr. 300.000 til sjómanna sem voru í fullu starfi á árinu 2016.

Þetta er í stuttu máli hvað samið var um í febrúar 2017, byggt á fellda samningnum frá í nóvember 2016.

Þrjár bókanir við samninginn

Bókun A, um athugun á hvíldartíma sjómanna. Sú könnun hefur farið fram að hluta en verður að gera betur og ná til fleiri ef hún á að vera marktæk. Mikil og góð breyting hefur orðið á hvíldartímanum með upptöku 8 tíma rúllandi vakta. Einnig hafa flestir litlu togararnir tekið upp 10 tíma frívaktir sem er til bóta en með því að bæta einum kalli við gætu þeir einnig verið á 8 tíma rúllandi vöktum. Þessi umræða um hvíldartímann hefur klárlega verið til góðs fyrir sjómenn.

Bókun B, um veikindarétt í skiptimannakerfum. Mikil vinna hefur verið lögð í þessa bókun. Samningsaðilar eru sammála um að sjómenn í veikindum skuli vera jafnsettir hvort þeir eru á sjó eða séu veikir. Þ.e. að hvorugur aðili „græði“ á veikindum. Í raun snýst þetta um hve mikið er hægt að lengja í útendann á veikindaréttinum þegar menn róa í kerfi einn og einn eða tveir og einn og / eða eru einnig að skipta launum. Skemmst er frá að segja að fullmótuð tillaga kom frá sjómönnum um veikindaréttinn í september sl. Útgerðarmenn höfnuðu tillögunni og vildu skerða réttinn. Þrátt fyrir þann sameiginlega skilning sem að ofan greinir. Mjög furðuleg vinnubrögð þó ekki sé meira sagt.

Bókun C, um heildarendurskoðun kjarasamnings. Þessi bókun snýst um að einfalda samninginn, fækka köflum og færa hann til nútímahorfs. Einnig að reikna öll skiptaverð úr 100% brúttó aflaverðmæti. Ekki er um efnislegar breytingar að ræða. Þær verða ræddar við samningaborðið í kjaraviðræðum. Þessi vinna gekk nokkuð vel þar til Samherjaskjölin komu til sögunnar, sameiginlegur skilningur sjómanna og útgerðarmanna er ekki frábrugðinn. Einnig hefur verið lögð mikil vinna í að breyta viðmiðum á skiptaprósentum í samningnum úr brúttó rúmlestum, mælieining sem hætt er að nota, og miða við skráða lengd skipa. Sú vinna er á lokametrunum og satt best að segja verður þessi breyting að koma til, til að ákvarða hvar hvert skip lendir með skiptaprósentu og mönnun.

Viðræðuáætlun milli Sjómannasambandsins og SFS er klár. Þar kemur fram að kröfur verða lagðar fram í byrjun janúar 2020. Í lok janúar geta báðir aðilar vísað til Sáttasemjara ef þurfa þykir.

Samherjamálið og verðlagning á sjávarfangi

Í Samherjaskjölunum kemur fram mikill óskapnaður sem maður hafði eiginlega ekki hugmyndaflug til að ímynda sér, ef rétt er. Það á að taka hart á þessu máli og rannsaka það ofan í kjölinn.

Einn angi af því máli er verðlagning á sjávarfangi á Íslandi. Sjómenn hafa lengi haldið fram að tvöföld verðlagning viðgangist á Íslandi. Þ.e. afurðaverð sem skilar sér heim sé ekki endanlegt afurðaverð. Útgerðarfyrirtækin eigi sjálf sölufyrirtækin erlendis og selji afurðirnar í raun sjálfum sér. Þannig skapast hagnaður á endanum sem aldrei kemur til Íslands, heldur geymdur eða nýttur erlendis. Virðist vera lítið mál miðað við Samherjaskjölin. Framkvæmdastjóri SFS bað um að talin yrðu upp þau sjávarútvegsfyrirtæki sem stunduðu viðskipti með aflandsreikninga. Líklega væri fljótlegra að telja upp þau fyrirtæki sem ekki stunda viðskipti með þessum hætti samkvæmt nýjustu upplýsingum.

Verðmunur á hráefni

Einnig sá gífurlegi verðmunur á hráefnisverði á uppsjávarfiski hér á landi og Noregi og Færeyjum. Það verður ekki einungis skýrt með betra hráefni eða betur borgandi mörkuðum hjá Norðmönnum. Til þess er munurinn einfaldlega of mikill. Fyrrgreindur framkvæmdastjóri hefur sagt að laun sjómanna á íslandi og í Noregi séu sambærileg þrátt fyrir þennan mikla mun á hráefnisverði. Það verður að taka með í reikninginn að tonnafjöldi per sjómann er miklu meiri hér en í Noregi! Sem sagt meiri framleiðni. Segir það ekki allt sem segja þarf? Það er um helmingi meiri afli per sjómann á Íslandi en í Noregi á uppsjávarflotanum. Ég fullyrði að viðveran er sambærileg á við þá sem vinna í landi.

Því var haldið fram í mín eyru hér um árið þegar Íslandssíldin hélt sig á Breiðafirði, að sjómennirnir væru í vinnu í fjóra tíma í túrnum. Köstuðu einu sinni og fengju 1000 tonn. En hvernig á nú skipið að sigla á miðin og til hafnar? Er það sem sagt ekki vinna að sigla skipi? Standa vaktir í vélarrúmi, á stjórnpalli, kokka ofan í mannskapinn og halda skipinu hreinu. Þetta eru eins fáránleg rök og hugsast getur og sett fram af þeim sem ekki hafa hundsvit á sjómennsku. Sjómenn eru bundnir skipi meðan það er á sjó og einnig í landi þegar ráðningu er ekki slitið. Svo heyrast sögur um að þessir andskotar þ.e. sjómennirnir hafi alltof há laun fyrir litla sem enga vinnu. Þetta er ekki boðleg umræða um laun sjómanna á Íslandi.

Eitt lítið dæmi

Eitt dæmi: Lítill togari með 12 manna áhöfn fiskar á sjötta þúsund tonn yfir árið. Kallarnir standa uppá endann í vinnu 14 tíma á dag í öllum veðrum. Róa yfirleitt þrjár vikur af hverjum fjórum. Launin eru jú þokkaleg en vinnan að baki þeim er gífurlega erfið og slítandi. Svipað ástand er á línuskipunum. Útgerðarmenn ættu auðvitað að vera stoltir og glaðir með sína sjómenn sem leggja hart að sér bæði fyrir sig sjálfa og útgerðina. Alltaf eru fundin öfgakennd dæmi um tekjur sjómanna sem síðan eru heimfærð uppá fjöldann. Tek fram að enn eru til útgerðarmenn  sem ekki taka þátt í þessu bulli en þeim fer fækkandi.

Gleðilegt ár!

Valmundur Valmundsson, formaður SSÍ